HMS: vilja húsnæðisstofnun á landsbyggðinni

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, vill ræða við sveitarfélögin á landsbyggðinni um hugmynd að nýrri húsnæðissjálfseignarstofnun sem starfi á landsbyggðinni með það að markmiði að stuðla að uppbyggingu almennra íbúða þar sem þess er þörf, utan höfuðborgarsvæðis og vaxtarsvæða.

Stofnunin verði samstarfsverkefni sveitarfélaga sem geti þannig náð stærðarhagkvæmni með því að sameinast um uppbyggingu og rekstur íbúðanna.

Þetta kemur fram í minnisblaði HMS til sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins og húsnæðissjálfseignarstofnanir (hses.) á þeirra vegum hafa fengið úthlutað stofnframlögum vegna 146 íbúða og eru 73 þeirra komnar í notkun. Átta hses. á vegum sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins eru starfandi í dag sem hafa fengið úthlutað stofnframlögum til alls 42 íbúða. Þrjú sveitarfélög eiga eftir að ganga frá stofnun hses. en hafa fengið úthlutað stofnframlögum vegna 22 íbúða.

Með auknu samstarfi sveitarfélaganna á þessu sviði væri hægt að tryggja ákveðna stærðarhagkvæmni hvað varðar rekstur og utanumhald en einnig væri hægt að ná fram hagkvæmni í byggingu íbúða með því að fara í sameiginleg
uppbyggingarverkefni í nokkrum sveitarfélögum í senn.

Ástæða þess að höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin eru undanskilin er að stofnunin er ekki hugsuð til að reka og eiga íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eða vaxtarsvæði í kringum borgina. Þannig ættu stærri sveitarfélög sem teljast til vaxtarsvæða að halda utan um sínar íbúðir sjálf eða félögum á þeirra vegum og þarf að hafa það í huga við skipun fulltrúa landshlutasamtaka í fulltrúaráð stofnunarinnar.

Lagt er til að athugað verði að leigíbúðafélagið Bríet, sem á íbúðir í öllum landshlutum, hvort félagið gæti tekið að sér að annast rekstur og viðhald íbúðanna og annan rekstur stofnunarinnar á grundvelli þjónustusamnings en þau sveitarfélög sem íbúðirnar eru staðsettar í geti séð um úthlutun þeirra.

Óskað verði eftir því að sveitarfélögin taki afstöðu til hugmyndarinnar og upplýsi HMS og sambandið um hana.

Erindið var lagt fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar á mánudaginn og bæjarstjóra falið að vinna málið áfram.

DEILA