Allir þekkja algenga fugla sem eru hluti af daglegu lífi til sjávar og sveita. Skógarþröstur, lóa, spói og hrafn. Starri, hrossagaukur, lundi. Svo mætti lengi telja. Fuglarnir eru á sveimi hér og þar og við veitum þeim mismikla athygli í erli dagsins.
Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar – Fugladagbókin 2022, heitir bók sem sr. Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði og áður í Bolungarvík hefur látið frá sér fara. Þetta er einföld bók en snjöll sem allt áhugafólk um fugla mun fagna.
Það getur verið gott að skrá eitt og annað sem ber fyrir augu í handhæga bók. Skrifa til dæmis nöfn fugla, jafnvel stutta lýsingu ef nafn er ókunnugt og svo ekki sé talað um ef flækingsfugl er á ferð hvort sem hann er nú sjaldgæfur eða ekki.
Nú er komin bók þar sem hægt er að rita niður skipulega fuglanöfn og fleira sem tengist fuglalífi. Bók sem fuglaáhugafólk hefur lengi dreymt um. Hún getur ekki síður verið hvatning til þeirra sem láta fuglana líða fram hjá sér til að gefa þeim nánari gaum.
Dagbókin er á vikuplani, frá janúar til desember. Í upphafi hverrar viku er fróðleikur um einn valinn fugl (alls 52) af þeim rúmlega fjögur hundruð sem sést hafa hér frá því að skráning hófst. Tæplega áttatíu þeirra verpa að staðaldri hér á landi.
Þarna er að finna skemmtileg fuglanöfn sem almenningur hefur sennilega ekki á hraðbergi en eru bæði sérstök og falleg – og fuglanir ekki síður. Já, hver hefur séð dómpápa? Ormskríkju og bláþyril? Býsvelg? Já, kröftug og dularfull eru nöfnin.
Bókin er 223 blaðsíður og það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur hana út.