Fjórðungsþing: Fiskeldissjóður verði lagður niður og tekjurnar renni beint til sveitarfélaganna

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga á Ísafirði 2021. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem nú stendur yfir, hefur samþykkt harðorða ályktun um gjaldtöku í sjókvíaeldi.

Þar segir að Fiskeldissjóð sem samkeppnissjóð þurfi að leggja niður en tryggja beri að fiskeldisgjaldið renni beint til innviðauppbyggingar þar sem eldið er stundað. Mikil óánægja hefur komið fram á þinginu með nýlega úthlutun fiskeldisgjaldsins. Stærsta hluta gjaldsins greiða fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum en stjórn sjóðsins úthlutaði meginhluta teknanna til verkefna á Austurlandi.

Vilja vestfirskir sveitarstjórnarmenn að gjaldið renni beint til sveitarfélaganna þar sem fiskeldið er stundað og að það verði notað til þess að byggja upp grunninnviði sem svara kröfum samfélaganna og atvinnulífsins.

Samkvæmt gögnum sem lögð voru fram á Fjórðungsþinginu munu gjöld fiskeldisfyrirtækjanna í Fiskeldissjóð vaxa á næstu árum verulega með auknu sjókvíaeldi og gætu numið 1,4 milljarði króna á ári eftir 5 ár.

Þá segir í ályktuninni að tryggja þurfi „uppbyggingu grunninnviða á Vestfjörðum svo svæðið verði samkeppnishæft við aðra landshluta þannig að fyrirtæki og samfélög geti dafnað. Mikilvægt er að haft verði náið samráð við sveitarfélögin varðandi uppbyggingu grunninnviða og tekjustofna ríkis og sveitarfélaga varðandi fiskeldi.“

Umhverfissjóður fyrir nærumhverfið

Í ályktuninni er gerð krafa um að reglugerð fyrir Umhverfissjóð sjókvíaeldis verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja að rannsóknir og vísindaþekking byggist upp í nærumhverfi fiskeldisstarfseminnar.

DEILA