Fiskeldi: 46 milljarðar króna og 1.850 manns

KPMG vinnur að skýrslu fyrir Vestfjarðastofu um samfélagslega greiningu vegna jarðganga á Vestfjörðum. Þar eru tekin saman þau áhrif sem samgöngubætur með jarðgöngum munu hafa á Vestfjörðum. Í skýrslunni eru teknir þeir kostir sem sveitarstjórnir hafa komið sér saman um að þrýsta á öðrum fremur. Það eru tvenn göng milli Bíldudals og Patreksfjarðar um Hálfdán og Mikladal og svo göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar.

Engu að síður er talin brýnt að gera göng á fleiri stöðum svo sem í gegnum Klettháls, jafnvel á Dynjandisheiði og að breikka Vestfjarðagöngin milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar. En áhrifin af þeim framkvæmdum eru ekki metin í þessari skýrslu.

Sævar Kristinsson kynnti drög að skýrslunni á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem hófst á Ísafirði í gær. Sagði hann að skýrslan yrði tilbúin eftir 2 vikur og þá sent Fjórðungssambandinu og Vestfjarðastofu.

Tölurnar tala sínu máli.

Á þessari glæru eru dregin saman atriði sem lýsa íbúaþróun síðustu ára, slæmum samgöngum og svo viðsnúningi með fiskeldinu sem hófst fyrir um áratug.

Á þessari öld hefur íbúum á Vestfjörðum fækkað um 13% á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um 30%. Mikilvægir millibyggðavegir eru oft lokaðir vegna ófærðar eða snjóflóðahættu.

Á hinn bóginn er útflutningsverðmæti fiskeldis á Vestfjörðum orðið 20 milljarðar króna og verður 46 milljarðar króna á ári þegar heimildir til eldis verða fullnýttar. Mikilvægi Vestfirðinga fyrir land og þjóð hefur farið stórum vaxandi og hefur líklega ekki áður verið jafn mikilvægt. Áætlað er að um 1.850 manns á Vestfjörðum muni byggja afkomu sína að einhverju leyti á fiskeldinu.

Í skýrslunni mun dregið fram hversu mikilvæg jarðgöng verða til þess að ofangreind verðmætasköpun geti átt sér stað með þeim jákvæðu áhrifum fyrir fjórðunginn sem af henni leiðir.

DEILA