Bolungavík: engin hætta af skriðuföllum í byggð

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir að engin hætta sé talin í byggð í Bolungavík af skriðuföllum.

Í gær birtist frétt í Fréttablaðinu af minnisblaði sem vísindamenn Veðurstofunnar, Náttúrurfræðistofnunar og Háskóla Íslands unnu fyrir starfshóp á vegum Umhverfisráðuneytisins. Þar er lagt til að rannsóknir fari fram á hlíðum ofan byggða og óstöðugar hlíðar verði skráðar. Tilefni minnisblaðsins eru skriðuföllin á Seyðisfirði í desember síðastliðinn.

Ellefu þéttbýlisstaðir eru tilgreindir í minnisblaðinu, þar af fimm á Vestfjörðum, Ísafjörður, Bolungavík, Suðureyri, Bíldudalur og Patreksfjörður.

Jón Páll segist hafa grennslast fyrir um þetta minnisblað í gær og í ljós hefði komið að í því var aðeins skoðað hvar væri rétt að rannsaka aðstæður og skrá. Í því væri ekkert sagt um að hætta væri fyrir hendi.

Varðandi Bolungavík fékk hann þau svör að mögulega væri laus jarðvegur í hólum ofan við snjóflóðavarnirnar í Traðarhyrnunni en enginn vafi væri á því að varnargarðarnir myndu þola slík skriðuföll. Niðurstaðan væri að engin hætta væri af skriðuföllum ofan við byggðina.

DEILA