Almannavarnanefndir á Vestfjörðum funduðu í síðustu viku

Í síðustu viku voru haldnir þrír fundir á Vestfjörðum, að frumkvæði almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Fundirnir voru haldnir á Patreksfirði, Ísafirði og Hólmavík.

Þeir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ásamt Jóni Svanberg Hjartarsyni, fagstjóra deildarinnar og Hermanni Karlssyni, aðalvarðstjóra lögreglunnar á norðurlandi eystra og í verkefnum á vegum almannavarnadeildar, fluttu erindi um almannavarnir og framtíðarsýn. Einnig flutti Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, erindi um almannavarnir á Vestfjörðum.

Til fundanna voru boðaðar almannavarnanefndirnar fimm á Vestfjörðum og fulltrúar allra viðbragðsaðila. Fundirnir voru vel sóttir og mjög gagnlegir.

Meðal þess sem þar kom fram eru áætlanir um að vera með eina aðgerðastjórn almannavarna í umdæminu, sem er bakland þriggja vettvangsstjórna á Vestfjörðum, þegar almannavarnaástand stendur yfir. Gerð viðbragðsáætlana, æfingar viðbragðsaðila og aukin samskipti var meðal þess sem var ákveðið, íbúum og þeim gestum sem fara um umdæmið til heilla.

Samkvæmt. lögum um almannavarnir er það lögreglustjóri eða fulltrúi hans sem er aðgerðarstjóri almannavarna í viðkomandi umdæmi. Í þessu tilviki Vestfirðir, norðan Bæjarhrepps og Dalabyggðar.

DEILA