Vinstri grænir: ríkja þarf sátt um það hvernig orkunnar er aflað

Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjun vatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.

Hér koma svör Bjarna Jónssonar, oddvita Vinstri grænna, en hann og Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem skipar 2. sætið unnu svörin saman og skrifa undir þau.

Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.

Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?

Svör:

Það þarf að skoða vel og vandlega hvaða möguleikar eru til að bæta raforkuöryggi Vestfirðinga. Það þarf að ríkja sátt um það hvernig orkunnar er aflað, eigi að byggja nýjar virkjanir. Við vitum að veikt flutnings- og dreifikerfi stendur atvinnulífi á Vestfjörðum fyrir þrifum. Meta verður vel alla kosti til að styrkja kerfið og tryggja hringtengingu og velja þá lausn sem er í mestri sátt við umhverfið, enda þótt það hafi aukinn kostnað í för með sér. Vatnsfjörður er eitt af okkar elstu friðlöndum og hefur verið óheimilt að virkja þar umfram 10 MW frá því að svæðið var friðlýst.

Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.

Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?

Svör:

Það er ánægjulegt að íbúar á þessu landsvæði séu að fá langþráðar samgöngubætur og vegabætur séu loks í augsýn, niðurstaðan varð að fara þessa leið og framkvæmdir hafnar. Tryggja þarf öllu svæðinu góðar vegtengingar. Á Vestfjörðum hafa verið unnin stórvirki í vegagerð á undanförnum árum og það er að verða til þjóðbraut Vestfirðinga, með tilkomu Dýrafjarðarganga og vegabóta um Dynjandisheiði. Enn er þó mikið óunnið í samgöngubótum á Vestfjörðum og munum við beita okkur af einurð fyrir því að því verki verði framhaldið til að auka búsetuöryggi.

Svör:

Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.

Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?

Svör:

Sjálfbært fiskeldi verður að byggjast upp á forsendum heimamanna með öflugu eftirliti, vöktun og rannsóknum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar í sátt við náttúruna. Í fiskeldi er megináskorunin að finna jafnvægi á milli nýtingar og náttúruverndar og mikilvægt að treysta eftirlit, vöktun og rannsóknir sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Við teljum mikilvægast að umhverfisvernd og sjálfbærni séu höfð að leiðarljósi við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi og sjáum þar mikla möguleika fyrir nýsköpun og framþróun í greininni ef rétt er á haldið, án þess að hún þurfi að ógna öðrum hagsmunum eins og í laxveiði og náttúrulegum vistkerfum. Hagsmunir alls samfélagsins snúast um að byggð sé upp arðbær atvinnugrein sem er í sátt við samfélag og umhverfi og að á öllum stigum séu leikreglur skýrar. 

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa um langa hríð kallað eftir að löggjöf um gjaldtöku hafna sé endurskoðuð og að auðlindagjöld sem fyrirtækin greiði fari til uppbyggingar innviða sveitarfélaganna, efli rannsóknir og að eftirlitsstörf byggist einnig upp í nærumhverfi fiskeldisstarfseminnar. Við tökum undir þetta réttlætismál og munum beita okkur í þá veru.

Bjarni Jónsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG

DEILA