Uppskrift vikunnar: Íslenska kjötsúpan

Þar sem farið er að nálgast að við fáum nýtt kjöt af yfirstandandi sláturvertíð og farið er að kólna finnst mér kjörið að vera með gömlu góðu kjötsúpuna.

Þessi uppskrift er gamla góða kjötsúpan hennar ömmu, ættu flestir að kannast við hana. Þessi uppskrift er fyrir 4-6.

Innihald

 •  600 g lambasúpukjöt
 •  1 L vatn
 •  hálfur saxaður laukur
 •  150 g gulrætur skornar í bita
 •  150 g gulrætur skornar í bita
 •  30 g hrísgrjón
 •  1 msk súpujurtir
 •  3 msk steinselja, söxuð (má sleppa)
 •   kartöflur, flysjaðar og skornar í bita (magn eftir smekk, mér finnst rauðar bestar)
 •  1 lítil gulrófa, flysjuð og skorin í bita
 •  salt og pipar

Aðferð

Snyrtið kjötið. Ef þið viljið minna að fitu má skera hana af eða bara fleyta fituna vel af. Setjið kjötið í pott og hellið köldu vatni yfir. Hitið rólega að suðu og fleytið froðu ofan af. Endurtakið nokkrum sinnum til að losna við sem mest af sora. Bætið svo blaðlauk, gulrótum og hrísgrjónum í pottinn ásamt súpujurtum og steinselju. Kryddið með pipar og salti og látið malla undir loki í um hálftíma. Bætið þá kartöflunum út í og látið malla í 10 mín. Setjið rófurnar í pottinn og sjóðið súpuna í um 15 mín. í viðbót eða þar til kjöt og grænmeti er orðið mjúkt. Smakkið súpuna og bragðbætið hana með pipar og salti ef þarf. Þeir sem vilja súpuna tæra geta sleppt hrísgrjónunum, ég geri það, finnst hún betri þannig. Og svo það fornkveðna, súpan er svo sannarlega ekki síðri á öðrum eða þriðja degi.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA