Unnið er þesssa dagana að lagningu ljósleiðara-stofnstrengs milli Kaldrananeshrepps og Djúpavíkur í Árneshreppi yfir Trékyllisheiði og ljósleiðara-aðgangsnet að heimilum, fyrirtækjum og fjarskiptahúsum í öllum hreppnum.
Í dag eru öll fjarskipti í hreppnum og á miðunum þar fyrir utan háð örbylgjusamböndum sem afkasta mun minna og geta rofnað í slæmu veðri.
Verkefnið fór af stað eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra undirritaði fyrr á árinu samninga um styrki til þess. Skilyrði fyrir fjármögnun og lagningu á ljósleiðara-stofnstrengnum var að samlegð myndi nást með lagningu Orkubús Vestfjarða á þriggja fasa háspennu jarðstreng yfir heiðina sem kæmi í stað bilanagjarnrar loftlínu.
Verktakar á vegum Árneshrepps og Orkubúsins vinna nú hörðum höndum að því að ljúka tengivinnu á heiðinni við krefjandi aðstæður. Plægingu strengjanna yfir Trékyllisheiði er lokið og er komið niður í Steingrímsfjörðinn við Bólstað. Þaðan verður svo strengur að spennistöðinni utan við Grænanes.
Næsti verkhluti snýr að tengingu byggðarinnar sjálfrar sem tryggir nútíma fjarskipti og raforku í byggð og atvinnustarfsemi í Árneshreppi.
Myndir: aðsendar.


