Um Teigskóg og fleiri góð mál

Um daginn birtist frétt um hjásetu mína og Karls Kristjánssonar á vef bb.is. Ekki get ég sagt að þar hafi verið um mikla fréttamennsku að ræða. Þetta virtist eingöngu gert til þess að koma því fram að sjöundi maður á lista Samfylkingarinnar styddi leið framhjá Reykhólum, R-leið. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en hins vegar tveggja ára gömul frétt og því kannski ekki eins fréttnæmt og annað sem gert var á þessum sveitarstjórnarfundi. Það var svo óvænt og skemmtilegt að frambjóðandi Viðreisnar skyldi taka þetta upp í grein sinni ,,Styrkjum liðið í NV-kjördæmi!“ þar sem hann sakar undirritaðan um að beita sér fyrir samgönguleysi, hvað sem það svo þýðir.

Afstaða mín í Teigskógarmálinu hefur verið ljós í nokkuð langan tíma. Ég studdi þá leið sem þjónað gæti þorpsbúum á Reykhólum ásamt því að stytta leið og bæta samgöngur allra á svæðinu, enda var ég oddviti Reykhólahrepps. Sú leið var ekki samþykkt, heldur önnur sem hefur gríðarlega neikvæð umhverfisáhrif umfram aðrar leiðir og bætti engu við fyrir þorpið á Reykhólum. Nú rúmum tveimur árum eftir að hin svokallaða Teigskógarleið var samþykkt hafa samfélagsleg áhrif þegar komið í ljós. Fólki hefur fækkað í þorpinu á Reykhólum um 20%, veitingastaðurinn lokaður og matvöruverslun lokaði um tíma en opnaði aftur með einum stærsta ríkisstyrk sem hefur verið greiddur til verslunar á landsbyggðinni. Við sem búum hér á Reykhólum verðum að vinna með þessar aðstæður og höfum sótt um að vera hluti af verkefninu brothættar byggðir. Varað var við þessu á sínum tíma en ekki á það hlustað. 

Því ber að fagna þegar nýir frambjóðendur ríða fram á ritvöllinn. Þá er ágætis regla fyrir þá að hafa staðreyndir á hreinu og alhæfa ekki einhverjar vitleysur. Ég hef stutt allar samgöngubætur á svæðinu, starfað í samgönguhópum á fjórðungsþingum og stutt flestar þær tillögur sem hafa fjallað um samgöngumál á þeim vettvangi sem og örðum. Ég vil samt þakka fyrir mína hönd og Samfylkingarinnar þá bjartsýni sem skín í gegnum þessi skrif bæði á bb.is og frambjóðandans. Þrátt fyrir að ég sé öflugur og Samfylkingin frábær þá reikna ég ekki með því að verða þingmaður í þessari atrennu. Til þess að svo yrði þyrfti Samfylkingin að fá um 70% atkvæða á svæðinu og ég held að flestir aðrir en frambjóðandinn og bb.is, séu sammála um að það sé frekar lítill möguleiki. Þeir geta því sofið vært þess vegna.

Samfylkingin er jafnaðarflokkur sem berst fyrir jöfnuði fyrir landsmenn alla, jöfnum tækifærum allra til að að vaxa og dafna á þann veg sem þeir kjósa, líka fyrir íbúa Reykhólahrepps. Samfylkingin berst fyrir sem jöfnustum aðstæðum allra um allt land til að geta haldið uppi búsetu og atvinnulífi, líka fyrir íbúa Reykhólahrepps. Samfylkingin er breiðfylking jafnaðarfólks sem byggir á hugsjónum jafnaðarmennskunnar. Samfylkingin stendur ekki fyrir skoðanakúgun, eins og sést með frábæru vali á lista Samfylkingarinnar um land allt, heldur breiðfylkingu fjölbreytts fólks aðhyllast hugsjónir jafnaðarstefnunnar. Ég er einn af þeim og stoltur af því. Kjósum jöfn tækifæri okkar allra og merkjum x við S.

Ingimar Ingimarsson,

frambjóðandi í 7. sæti fyrir Samfylkinguna í Norð-Vesturkjördæmi og afar ólíklegur þingmaður kjördæmisins í þetta skiptið.

DEILA