Torfnes: Vestri vill tvo starfsmenn í sex mánuði

Torfnesvöllur.

Knattspyrnudeild Vestra hefur sent Ísafjarðarbæ erindi þar sem lýst er ánægju með fyrirkomulagið í sumar sem gilti um umsjá knattspyrnuvalla og vallarhúss á Torfnesi en jafnframt óskað eftir breytingum á því.

Deildin fékk að ráða tvo starfsmenn í 6 mánuði sem unnu á dagvinnutíma. Segir í bréfinu að Olísvöllurinn hafi sjaldan
verið í jafn góðu ásigkomulagi og í sumar. Bent er á að ekki er hægt að sinna starfinu á „venjulegum“ vinnutíma eingöngu. Starfsmenn þarf á svæðið þegar það eru leikir og sinna þarf vellinum sérlega vel bæði fyrir og eftir leik. Því sé þörfin sú að hafa starfsmenn sem hafa sveigjanlegri vinnutíma og geta unnið m.a. um helgar þegar það eru leikir. Launin þurfa þá að endurspegla þennan vinnutíma og sveigjanleika.

Óskað er því eftir því að fá tvö stöðugildi á Torfnessvæðið í 6 mánuði fyrir næsta tímabil og að laun verði endurskoðuð og hækkuð í samræmi við vinnu.

Bæjarráð kallar eftir nánari útlistun á þeim verkefnum sem um er að ræða á knattspyrnuvöllunum og vallarhúsi á Torfnesi.

DEILA