Suðureyri: landfylling heimiluð

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt erindi Fisherman á Suðureyri um leyfi fyrir framkvæmdum við landfyllingu við Brjótinn, Suðureyri.

Samningur milli Ísafjarðarbæjar og Fisherman um afnot af landinu var gerður 24. apríl 2020.

Í fyrsta áfanga verksins, sem gert er ráð fyrir að taki 2 ár, verður komið fyrir 22.000 rúmmetrum af efni. Alls er verkið landfylling um 30.000 fermetra að stærð og efnismagnið um 100.000 rúmmetrar, þar af um 7.000 rúmmetrar af grjóti. Verktíminn er áætlaður um 5 ár.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að stuðla að auknu framboði á byggingarlandi fyrir iðnaðar- og athafnastarfsemi á Suðureyri. Einnig er markmiðið að skapa aðstöðu fyrir starfsemi Fisherman og stuðla að vexti fyrirtækisins á Suðureyri í Ísafjarðarbæ.

Fyrirtækið Fisherman hefur starfað í tvo áratugi og framleiðir úrval af vörum tengdum fiski fyrir smásölu- og veitingamarkaði víða um heim. Fram kemur í gögnum málsins að fyrirtækið hyggur á að auka við starfsemi sína á Suðureyri og landfyllingin er liður í þeirri uppbyggingu. Almennt leggur Fisherman áherslu á að hjálpa gestum sem heimsækja Ísland að upplifa fisk í gegnum ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Einnig að verklagið við framleiðsluna byggi á gömlum íslenskum hefðum, venjum og reynslu. Starfsfólkið er flest með rætur á Vestfjörðum.

Skipulagsstofnun úrskurðaði í júlí 2021 að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.