Sósíalistaflokkurinn karllægasti flokkurinn

Fram kemur í fréttatilkynnngu MMR að Sósíalistaflokkurinn er karllægasti flokkurinn og Vinstri græni sá kvenlægasti.

Í greiningu á fylgi flokkanna samanlagt í síðustu þremur könnunum MMR eftir kynjum má sjá að meðal kvenna fá Vinstri grænir 17,2% fylgi en aðeins 6,4% meðal karla. Er þetta mesti munur á afstöðu kynja til stjórnmálaflokks. Þá er einnig verulegur munur kynjanna hjá kjósendum Flokks fólks. Fær flokkurinn stuðning 6,9% kvenna en aðeins 3,7% karla.

Hjá Framsókn, Pírötum og Viðreisn er munurinn eftir kynjum lítill, um 1%.

Sósíalistaflokkur Íslands fær stuðning 10,2% karla en 5% kvenna sem gerir hann að karllægasta flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn fær 24,7% fylgi karla og 19,4% kvenna og Miðflokkurinn er einnig með meira fylgi meðal karla en kvenna, 7,1% stuðning karla og 3,8% kvenna.

Sjálfstæðisflokkurinn fær mest fylgi bæði meðal kvenna og karla. Vinstri grænir eru með næstmest fylgi kvenna og Samfylkingin í þriðja sæti. Framsóknarflokkurin fær næstmest fylgi karla og Samfylkingin er í þriðja sæti.

DEILA