Smalað í Skjaldfannardal

Skjladfannardalur.

Smalað var í Skjaldfannardal um síðustu helgi. Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn birti á Facebook síðu sinni eftirfarandi frásögn af smalamennslunni.

„Nú skal smala fögur fjöll

og fanga skjarra sauði.

Talsstöðvar því tókum öll

og töluvert af brauði.

Vegna einmuna sumarblíðu og að gróður allur í úthaga stendur enn feikivel var smölun seinkað um viku frá því sem verið hefur undanfarin haust og kom það niður á smalafjölda ásamt Coviduppákomumí fjölskyldum. Björn einkaframtaksmaður fullyrti að vísu, að vegna Sósíalistaframboðs míns hefðu margir grónir smalar snúið við mér bakinu, en ég hygg að það sé falsfrétt sem eigi ekki við nein rök að styðjast.

Á föstudaginn var í blíðskaparveðri farið í Inn-Kaldalón og smalað niður og heim undir minnismerkið um Sigvalda Kaldalóns, tónskáldið ástkæra.Í birtingu á laugardagsmorgun var svo 8 vaskra smala sveit send frammí Skjaldfannardalsbotn, allt að jökli og þurftu því tveir þeirra að vaða Jökulána, þverá allvatnsmikla og fengu til þess vöðlur úr svörtum ruslapokum, en bara einn á mann, sem þótti óþarfa sparsemi og varð ég að bæta öðrum við og tókst þá vöðuninn giftusamlega og tafir í lágmarki, en venjuleg snjóbrú á ánni of veik vegna hamfarahlýnunarinnar í sumar. Rigning var töluverð og nú bættist svartaþoka við svo erfitt var að halda skipulagi heim Skjaldfannarfjall. Fengu þá smalar fyrirmæli um að hóa sem tíðast og hæst bæði til að geta vitað hvað næstu mönnum og konum, sem voru í meirihluta, liði og eins til að hrekja hugsanlegar kindur í rétta átt. Hagyrðingar voru á hverju strái á fjallinu og lýsti einn þeirra kringumstæðum svo:

Þokan, hún var svört sem synd,

sótti nærri bana.

Álpaðist á hvíta kind

og klofaði yfir hana.

Eftir 3 tíma birti upp og sögðust þá hæstu smalar aldrei hafa séð fegurri sól né dásamlegra landslag, en voru þá slitnir úr öllum tengslum við neðri félaga, en það tókst að berja í þá bresti og var komið heim með töluvert af fé kl.17. Það var síðan ragað og vigtað í fjárhúsunum og kom þá á daginn að viðbótarvikan hafði farið vel í dilkana, m.a.var gimbur, borin 11 maí, 62 kíló, sem verður að teljast gott. Fleiri gimbrar voru á líku róli, svo kynjajafnrétti virðist vera að verða á þessum vettvangi. Að morgni sunnudags, í vondri veðurspá var komið að því að sækja Kaldalónsféð um 10 km. leið. Spáin rættist komið hrakviðri um kl. ellefu og á móti veðri að sækja og komu síðustu smalar hundrennandi blautir heim um kl.16 og tygjuðu sig þá til heimferðar. Inga Ívars. stóð fyrir veislu, bæði í mat og drykk, sem var langmikilvægasta hlutverkið þessa risjóttu helgi. Mínar hjartans þakkir fyrir það. Og smalarnir, það er heiður að hafa svona fólk í liði með sér. Ótrúlega þolgótt og öflugt smalafólk. Í gærkveldi komu svo Sigmundur í Lyngási, Reynir í Gröf, Marínó á Hólmavík og Jóhanna í Svansvík og hjálpuðu mér að raga og vigta Lónféð. Það vantar rúmlega 50 ær og lömb og stefnt að því að hafa hendur í hári þeirra um næstu helgi.“

DEILA