Sjávarútvegur í heimabyggð; hver er raunverulega staðan?

Við sem höfum búið í sjávarbyggðum allt okkar líf erum vel meðvituð um hvernig fiskveiðistjórnun hefur svipt okkur öllum fyrirsjáanleika um framtíð byggðarlagsins okkar. Ísafjörður er engin undantekning frá því. Þegar kvótakerfið var sett á höfðu menn ekki trú á að það yrði langlíft og ætluðu að bíða það af sér. Staðreyndin varð hins vegar sú að kerfið skaut rótum og fór allt vald yfir framtíð fólksins til þeirra sem „áttu“ kvótann. Hér á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið höggvið stórt skarð í atvinnulífið, allt frá árdögum kvótakerfisins og útgerð og fiskvinnsla borið mikinn skaða.

Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi

Við vitum hvað við höfum í dag. Við höfum misst nóg og viljum ekki missa meira. Þess vegna veita loforð um stöðugleika okkur örlitla hugarró, betra að halda því sem við þó höfum heldur en að hætta á að missa meira. Við treystum því að stöðugleikinn tryggi að við höldum því sem við höfum. En er það rétt? Er það stöðugleikinn sem okkur er boðið upp á?

Tryggir stöðugleikinn okkur betra líf?

Algengur misskilningur er að stöðugleikinn þýði kyrrstöðu. Það er af og frá. Stöðugleikinn er að vera stöðugt í sömu vegferð. Stöðugleikinn tryggir okkur að við höldum áfram á sömu braut og við höfum verið. Hvert mun sú braut bera okkur? Jú, vegferð síðustu ára undir dyggri stjórn ráðandi flokka hefur borið okkur þangað sem við erum í dag. Samþjöppun í sjávarútvegi heldur áfram og vald stórfyrirtækja yfir framtíð sjávarbyggða eykst sem aldrei fyrr. Stöðugleikinn er að halda áfram að minnka vald almennings yfir framtíð sinni.

Hvernig heimfærum við reynslu annarra yfir á okkur?

Við höfum horft upp á rótgróin fyrirtæki víða um land skipta um eigendur og hvað hefur þá gerst? Hver tryggir framtíð reksturs á svæðinu? Til dæmis hefur það þróast svo að í sjávarútvegi á norðanverðum Vestfjörðum er aðeins eftir einn afgerandi stærstur aðili, Hraðfrystihúsið Gunnvör, og er það fyrirtæki stór burðarstólpi í atvinnulífi okkar og hefur afgerandi áhrif á búsetuskilyrði á svæðinu.

Kynslóðaskipti í fyrirtækjum eru eðlilegasti hlutur og fara yfirleitt þannig fram að þegar rekstraraðili sest í helgan stein tekur arftaki hans við og heldur áfram rekstri. Kvótakerfið í þeirri mynd sem það er nú setur þetta eðlilega ferli í stórkostlega hættu. Verðmat á fyrirtækjum er verulega skekkt þar sem kvótinn er orðin verðmætasta eign fyritækjanna. Skip, frystihús, tækjabúnaður og mannauður er orðinn að aukaatriði. Hvað gerist þegar kemur að þessu með okkar fyrirtæki? Hefur einhver heimamaður bolmagn í slíka fjárfestingu sem kvótakaup eru? Er kannski líklegra að stórir aðilar annars staðar af landinu reyni að komast yfir kvótann og leggja niður vinnslu á okkar svæði? Höfum við nokkuð gleymt harmsögu okkar af Guggunni sálugu?

Við getum engan veginn vitað þetta? Þetta er stöðugleikinn sem okkur býðst í dag.

Veiðiheimild, ekki kvótaeign

Þróunin hefur verið sú að nú er litið á kvótann sem fjársjóðskistur sem ganga kaupum og sölum milli milljarðamæringa. Okkar hlutverk er að taka afleiðingunum. Ávinningurinn tilheyrir okkur ekki.

Kvótanum var alltaf ætlað að vera heimild til veiða og það er það sem hann er í grunninn, tæki til að tryggja atvinnu. Atvinnan okkar á ekki að vera til sölu!

Kvóti er heimild til veiða og háværar raddir tala um eignaupptöku verði kvótinn innkallaður. En hvaða eign er verið að taka? Fiskurinn verður áfram veiddur. Sjómennirnir okkar veiða hann í dag fyrir fyrirtækin okkar í heimabyggð. Okkar sjómenn koma til með að veiða fiskinn áfram fyrir fyrirtækin okkar í heimabyggð. Það er ekkert að breytast. Veiðigjöld eru lögð á í dag og verða innheimt áfram, engin breyting þar á. Það eina sem breytist er vald kvótaeigenda til að fara með kvótann frá okkur eða leigja smærri útgerðum þessa veiðiheimild á okurverði.

Þú átt valið

Stöðugleikinn sem við getum kosið að viðhalda er að halda áfram óbreyttri stefnu og vona að höggvið verði „annars staðar“. Viljum við leggjast á bæn og vona að ekki fari illa hjá okkur?

Við höfum annan valkost. Við getum valið að innkalla kvótann og tryggja að fiskurinn verði áfram veiddur af okkar sjómönnum og vinnslan fari fram í heimabyggð. Við þurfum bara að þora.

Erum við menn eða mýs?

Bergvin Eyþórsson

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands og er í framboði í NV-kjördæmi.

DEILA