Efla ætti enn frekar samskipti Íslands og Póllands og auka þarf viðveru íslenskra stjórnvalda í Póllandi að mati starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði í september 2019.
Starfshópnum var falið að greina tvíhliða samskipti ríkjanna á heildstæðan hátt og leggja til aðgerðir sem hægt væri að framkvæma á næstu árum. Hann leggur til að ráðherra taki til athugunar ellefu tillögur sem annars vegar lúta að því að festa enn frekar í sessi farsæl samskipti þjóðanna og hins vegar að almennum aðgerðum sem hafa það að markmiði að efla þau enn frekar.
„Pólverjar eru langfjölmennasti hópur útlendinga með búsetu á Ísland og hafa auðgað íslenskt samfélag svo um munar. Þeir hafa stækkað kökuna og átt ríkan þátt í að skapa þá hagsæld sem hér ríkir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.
Starfshópnum var falið að koma með tillögur að aðgerðum og verkefnum sem ráðast má í á næstu árum með það fyrir augum að styðja enn frekar við samskipti Íslands og Póllands. Starfshópurinn leggur eftirfarandi til:
- Starf viðskiptafulltrúa sendiráðs Íslands í Berlín verði eflt með tilliti til Póllands.
- Stutt verði við aukin milliríkjaviðskipti og starfsemi Pólsk-íslenska viðskiptaráðsins.
- Stutt verði við aukið samstarf í sjávarútvegi
- Blásið verði til sóknar í verkefnum á vegum uppbyggingasjóðs EES.
- Stuðlað verði að útflutningi á íslensku hugviti og verkþekkingu á sviði orkumála og jarðvarma í Póllandi.
- Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála verði eflt.
- Samstarf á sviði mennta- og menningarmála verði eflt.
- Þess verði gætt að þátttaka Íslands í viðskipta- og menningarverkefnum í Póllandi verði áfram byggð á grunnstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
- Stuðlað verði að auknu samráði á svið heilbrigðismála.
- Opnuð verði sendiskrifstofa í Varsjá eða einn af starfsmönnum sendiráðs Íslands í Berlín hafi reglubundna viðveru í Póllandi.
Skýrsluna má lesa í heild sinni á vef Stjórnarráðsins
Fréttatilkynningin í pólskri þýðingu.