Sveitarfélögunum á Vestfjörðum standa 2.547 milljónir króna til boða ef þau ákveða að sameinast einhverju öðru sveitarfélagi. Ef sveitarfélögin níu samþykktu að sameinast í eitt sveitarfélag myndi þessi upphæð, liðlega 2,5 milljarður króna renna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til þeirra. Samtals er ætlunin að verja 15 milljörðum króna til þess að stuðla að sameiningu sveitarfélaga á næstu árum.
Dregið verður úr öðrum framlögum Jöfnunarsjóðsins til þess að mæta þessum framlögum til sameiningar. Því er óljóst hver heildaráhrifin af nýju sameiningarframlögunum verða á fjárhag sveitarfélaga.
Framlögin skiptast í þrjá flokka. Til lækkunar skulda sveitarfsjóðanna á Vestfjörðum myndu renna 1.249 milljónir króna, 900 milljónir króna eru föst framlög, 100 m.kr. á hvert núverandi sveitarfélag og 408 m.kr. eru svokölluð byggðaframlög og eru greidd þeim sveitarfélögum þar sem fólksfjölgun síðustu 5 árin er undir landsmeðaltali.
Sjá má skiptinguna niður á hvert núverandi sveitarfélag í eftirfarandi töflu:
Hæst er framlagið til Ísafjarðarbæjar 612 m.kr. Vesturbyggð fengi 530 m.kr. og Bolungavík 522 m.kr. Súðavíkurhreppur og Kaldrananenshreppur fengju lægstu framlögin 102 m.kr. hvort. Athyglisvert er að það eru fjölmennustu sveitarfélögin sem búa við verstu skuldastöðuna og koma til með að fá skuldajöfnunarframlögin en fjárhagsstaða fámennu sveitarfélaga gefur ekki tilefni til þess að þau fái fjárframlag.