Mjólkurbikarinn: Vestri – Valur á morgun

Vestri tekur á móti Íslandsmeisturunum í Val á morgun, miðvikudag, í 8. liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Til þessa hefur Vestri sigrað Hamar, KFR, Aftureldingu og Þór nú síðast, sem vannst 4-0.
Valur hefur til þessa sigrað Leiknir R. og Völsung.  

Við heyrðum í Jóni Þóri þjálfara og hafði hann þetta um leikinn að segja.

„Mér líst auðvitað mjög vel á leikinn. Það er ekki oft sem Íslandsmeistar koma hingað á Ísafjörð og spila. Það verður mjög gaman fyrir okkur að kljást við þá. Við vorum mjög svekktir að hafa ekki unnið Fjölni í síðasta leik. Sem var reyndar frábær leikur af okkar hálfu og mjög góð frammistaða. Við erum að fá Pétur og Benó tilbaka eftir leikbann, það eru tveir leikmenn sem hafa verið mjög öflugir í markaskorun fyrir okkur undanfarið.“

Spurður að því hvort Vestri geti strítt jafn öflugu liði og Val sagði Jón Þór,

„Við erum búnir að undirbúa þennan leik mjög vel og höfum farið vel yfir Valsliðið. Það eru möguleikar gegn þeim og við þurfum að nýta þau tækifæri sem við fáum vel.“

Fáir eru jafn spenntir fyrir leiknum og Sammi formaður, en spurður út í möguleiga Vestri sagði Sammi „Já, við getum það klárlega og meira en strítt þeim, þar sem ég veit að strákarnir eru að fara í þennan leik til að vinna og hafa þeir ásamt mér fulla trú á því að við getum sigrað Val hérna heima, en við þurfum að sjálfsögðu að eiga topp leik og hafa áhorfendur með okkur í liði, en þeir eru klárlega okkar 12. maður


Og kallar Sammi sérstaklega eftir því að stuðningsmenn Vestra fjölmenni á völlinn og styðji við bakið á strákunum. En ástandið á flestum er gott.

Ljómandi vel, það eru allir klárir nema Kunday sem á við meiðsli að stríða. Valur er Íslandsmeistari, með 4 landsliðsmenn og eru feiknar vel manna lið, en það gerir mig bara enn spenntari fyrir þessum leik“ Sagði Sammi einnig um leikinn, en með sigri ætlar Sammi að láta sig dreyma um evrópu!

„Ef við vinnum Val þá getum við unnið þessa keppni og spilað i Evrópukeppni á næsta ári“

Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á völlinn, styðja við sína menn og sjá til þess að nafn Vestra verði í pottinum næst þegar verður dregið.

Vill knattspyrnudeild taka það fram að einungis er hægt að kaupa miða á leikinn í gegnum Stubb appið, sem og aðeins séu 400 miðar í boði. Ársmiðar gilda ekki.

DEILA