Lifandi samkoma – hugsjón

Í gærkveldi 20. september var haldinn áhugaverður og fræðandi fundur í félagsheimili Patreksfjarðar um fiskeldi sem að mestu fer fram í sjó hér vestra.

Fjölmenni var á fundinum og fundargestir komu víða að.  Upplýsingagnóttin var slík að sumir áheyrendur hafa líklegast átt í fullu fangi með að meðtaka það sem reitt var fram og festa sér í minni. Gagnlegt væri, reyndar þarf tæpast að nefna það, að Vestfjarðastofa taki saman yfirlit úr öllum fyrirlestrunum og birti á heimasíðu sinni. Það er enginn vafi að fiskeldi í sjó er margþætt og flókið viðfangsefni og hefur glætt samfélögin  á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem það er þegar hafið. Mun það  væntanlega hafa sambærileg áhrif á norðurfjörðunum þegar umsvifin aukast þar. Mörg orð mætti hafa um fjölbreytt efni fundarins. Gagnlegt og lýsandi væri að taka fyrir einstök atriði  og fjalla nánar um þau út frá ýmsum sjónarhornum þar sem sitt sýnist hverjum og einum. Ég slæ  samt botninn í þessa umfjöllun að þessu sinni með nánast sömu orðum og ég mælti vorið 2010 þegar bæjarstjórn Vesturbyggðar veitti komandi fiskeldi huglægan stuðning sinn því opinbert og formlegt vald hafði hún ekki þá frekar en nú varðandi viðfangsefnið.

Við fögnum fyrirhuguðum áformum um fiskeldi í fjörðunum okkar og styðjum það að því tilskildu, að starfsemin verði rekin af ábyrgð án undanbragða og í fullri sátt við samfélagið og virðingu fyrir umhverfinu.

Ólafur Sveinn Jóhannsson sá um að stjórna fyrrgreindum fundi. Var hann röggsamur í því verki og með lifandi framkomu og kynnti fyrirlesara til leiks með vísun í ættfræði. Á sumum kunni hann deili og heimfærði þá til upprunans en um aðra vissi hannn ekkert og ættfærði sjálfan sig ekki. Ólafur nefndi tvo Magnúsa sem brautryðjendur í fiskeldi og áhrifavalda hér vestra, annan kenndan við Tungu í Tálknafirði og hinn Vesturbotn í Patreksfirði. Ólafur  Sveinn er frændi Einars Magnúsar Ólafssonar (1913-1998) frá Vesturbotni afar sérlundaðs hugsjónarmanns og brautryðjanda í vegargerð og  á sýn á fiskeldi. Magnús var farinn að tala fyrir fiskeldi í tjörnum árið 1955 eða fyrr. Hlustaði ritari þessarar greinar þá 10 ára á hann tala fyrir hugmyndum sínum við vígslu félagsheimilisins Fagrahvamms í Örlygshöfn sumarið 1955. Það náði ekki eyrum  viðstaddra bænda sem voru fastir í hugsun um sauðfé, mjólkurnyt kúa, nægjanlegan heyfeng, góðar heimtur af fjalli og refaveiðar. Síðar víkkaði hann  hugmyndina úi í það að þvera firði og ala fisk í fjarðarbotnum innan garða. Stórtækasta hugmyndin var sú ( um 1965) að þvera mynni Þorskafjarðar með vegargerð frá Melanesi yfir á Reykjanes í nánast sama fari og síðar kom til álita og deilur stóðu um en slegin út af borðinu sem of dýr af hálfu fulltrúa stjórnvalda. Þau áform voru ekki stærri en svo í huga Magnúsar að hann stofnaði á sínum tíma félag viðfangsefnið. Lögðu ýmsir fram fé í félagið. En þá sem áður reyndist almennur áhugi ekki nægur og stjórn vegamála andsnúin hugmyndinni. Magnús setti fram áætlun um nokkur jarðgöng á sunnanverðum Vestfjörðum löngu áður en öðrum datt í hug að nefna slíkt og talaði fyrir hugmyndinni. Öllum fannst hann of stórtækur. Vonandi rætist sú hugsjón hans að einhverju leyti. Magnús upplifði drauminn um lax í lónum sem hann gerði í landi sínu í botni Ósafjarðar sem gengur ínn úr Patreksfirði. Lónin fylltust af laxi og bláum bjarma sló á yfirborð vatnsflatarins, slík var mergðin. Laxinn virtist una sér í lónunum. Þegar Magnús var inntur eftir því hvenær ætti að fanga laxinn og slagta, þá svaraði hann: „Það stóð aldrei til.“

Sett saman 21. september á slagvirðisdegi með stífum vindi úr norðaustri sem er að snúast vesturs.

Úlfar B Thoroddsen

Patreksfirði

DEILA