Kristján Þór kynnti tillögu að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í ríkisstjórn í dag tillögu að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland.

Ræktum Ísland! byggir á þremur lykilbreytum sem munu verða ráðandi í landbúnaði framtíðarinnar: 

  • landnýting
  • loftslagsmál og umhverfisvernd og
  • tækni og nýsköpun

Þessar þrjár breytur setja sterkan svip á þau tíu áhersluatriði sem dregin eru fram í stefnu tillögunni en þau eru:  landnýting, landsskipulag og flokkun, fæðuöryggi, líffræðilegur fjölbreytileiki, umhverfisvernd, alþjóðleg markaðsmál, neytendur, fjórða iðnbyltingin, menntun, rannsóknir, þróun, og fjárhagsleg samskipti ríkis og bænda. Þá er í tillögunum kynnt 22 skref sem að mati verkefnisstjórnar er nauðsynlegt að stíga við gerð aðgerðaráætlunar. 

Þrjú ár eru síðan vinna við mótun stefnunnar hófst í samráði við Bændasamtök Íslands, en hún var samvinnuverkefni stjórnvalda, bænda, neytenda og atvinnulífs undir forystu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Í september 2020 skipaði ráðherra verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem lagði í maí sl. fram Ræktum Ísland! umræðuskjal um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Skjalið var í kjölfarið birt á samráðsgátt stjórnvalda.

Ráðherra, ásamt verkefnisstjórn, fór að því loknu í hringferð um landið og hélt tíu opna fundi þar sem hlustað var eftir viðhorfi fólks, hugmyndum og ábendingum um umræðuskjalið. Verkefnisstjórnin vann svo úr niðurstöðum þeirra ábendinga sem bárust. Áætlað er að stefnan verði lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga á næsta þingi.