Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun er Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá þingmenn í Norðvesturkjördæmi eins og oftast hefur verið frá því að ný kjördæmaskipun tók gildi árið 2003.Teitur Björn Einarsson sem situr í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins er samkvæmt þvi inni sem kjördæmakjörinn þingmaður ásamt með þeim Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur og Haraldi Benediktssyni og mynda þau öflugan hóp. En það er ekkert öruggt þegar fá atkvæði skilja að framboðslistana sem eru margir og því dreifist fylgið og skapar mikla óvissu. Teitur Björn er því vissulega í baráttusæti sem ég vil vekja athygli á og hvetja kjósendur til þess að tryggja þessum góða frambjóðanda þingsæti með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Teitur Björn er einn allra öflugasti frambjóðandi til þingsins og þekkir vel þarfir íbúanna, atvinnulífsins, stofnana og stjórnsýslu Norðvesturkjördæmis. Hinar margbreytilegu byggðir í kjördæminu þurfa slíka þingmenn og það skiptir miklu máli að þrír öflugir þingmenn vinni saman innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins að okkar málum. Það þekki ég vel frá því að ég vann með þeim Einari Kristni Guðfinnssyni, Einari Oddi Kristjánssyni og svo Herdísi Þórðardóttur að því að tryggja hagsmuni kjördæmisins innan þingsins.
Teitur Björn ólst upp á Flateyri og starfaði þar eftir að hafa lokið námi í lögfræði. Hann er í dag búsettur í Skagafirði þar sem hann settist að í heimasveit eiginkonunnar eftir að hafa setið um tíma á Alþingi, starfað í stjórnarráðinu og unnið sem lögmaður. Teitur Björn hefur því mikla reynslu sem mun nýtast honum vel á Alþingi og hann nýtur trausts þeirra sem best þekkja til verka hans. Ég vona að Teitur Björn nái kjöri því að við þurfum þingmenn með reynslu hans og þekkingu og tengsl við landsbyggðina og umfram allt mann sem nýtur mikills stuðninga þeirra sem þekkja hann best.
Sturla Böðvarsson
sturla@sturla.is