Kæru kjósendur, þjáningarbræður og systur nú er enn og aftur komið að því að við veljum okkur eins öfluga þingmenn og nokkur kostur er á. Við viljum nota þennan litla pistil til að opinbera okkar þanka því tengdu. En við fluttum til Vestfjarða fyrir 6 árum nánar tiltekið í Vesturbyggð.
Við keyptum lítið bleikjueldi í Vatnsfirði. Gerðum fastlega ráð fyrir að okkur yrði vel tekið og studd af yfirvöldum á svæðinu. En komumst að því eftir nokkur misseri er við þurftum á tillitssemi og skilningi þessara stjórnvalda að halda að þannig var það bara alls ekki. Gerðum okkur ljóst að það er mjög djúpt á jákvæðum og hvetjandi aðgerðum sveitarstjórnar okkur til handa. En þó tók steininn úr er starfsmenn Umhverfisstofnunar ríkisins á sunnanverðum Vestfjörðum fóru beinlínis að leggja okkur í einelti. Það er í raun verðugt rannsóknarefni hvernig starfsmenn opinberra stofnana, stofnana okkar skattgreiðanda geta leyft sér að akta. Það bugar hvern mann og brýtur á endanum að standa í stöðugum mótbyr.
Okkar þrautarganga er komin á sjötta ár og við höfum spurt okkur síðustu árin nokkrum sinnum hvort ekki sé komið nóg og hverfa á braut. Það sé ekki þess vert að missa heilsuna fyrir þetta. En ákváðum að þrauka í von um að eitthvað jákvætt færi að gerast okkur til handa. Við óskuðum eftir m.a. að forystumenn í fiskeldi á Íslandi greiddu götu okkar. Þar komum við að tómum kofanum. Það var marg sinnis óskað eftir skilningi sveitarstjórnar á okkar málum. “Okkar málum” er einfaldlega það að okkur sé veitt heimild til að koma yfir okkur þaki, að komið sé til móts við okkur varðandi skólagöngu barna okkar og leikskóla. Og að við fáum að reka okkar fyrirtæki án óeðlilegra afskipta opinberra stofnana. Þetta eiga að vera sjálfsagðir hlutir en svo er alls ekki þar sem við eigum í hlut. Við höfum spurt okkur að því hvort það séu einhverskonar “kóngaveldi”sem ráði ríkjum í þessari sveit, sem nánast “stjórni” sveitinni þegar allt kemur til alls. En við vonum að svo sé ekki.
En aftur að alþingismönnum okkar, við töluðum við nokkra. En okkar vandamál eru líklega of léttvæg svo vert sé að sinna þeim. Við eigum einn sem er okkur að skapi það er hún Lilja Rafney Magnúsdóttir. Hún er sú sem hefur orðið til þess að snúa okkar högum. Eftir að við gerðum henni grein fyrir okkar stöðu og nánast vonlausu “baráttu”við sveitarstjórn og ákveðna starfsmenn útibús Umhverfisstofnunar á sunnanverðum Vestfjörðum bauðst hún til að kynna sér málin nánar. Hún gerði meira en að kynna sér málin. Hún hefur fundað með stjórnendum Umhv.st., Byggðastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðs og fleiri stofnana sem tengjast okkar málefnum. Hún hefur fyllilega öðlast okkar traust og hún stendur við orð sín. Elja, kjarkur, þor og réttsýni eru kostir er prýða mann er þá bera. Stjórnmála- og embættismenn sem hafa þessa kosti í farteskinu eru hreinn fjársjóur fyrir hvert samfélag.
Að missa mann af þingi þar sem Lilja Rafney Magnúsdóttir er væri stór skaði fyrir Vestfirðinga.
Með þökk fyrir birtinguna,
Sveinn og Kristín,
bleikjueldinu við Þverá í Vatnsfirði