Jafnrétti óháð búsetu

Það eru mörg og fjölbreytt verkefni sem bíða í Norðvesturkjördæmi enda kjördæmið stórt og áherslur ólíkar á milli svæða. Heilbrigðismálin, samgöngur, fjarskipti, menntun, atvinnuuppbygging og orkumál, allt helst þetta í hendur og varðar daglegt líf fólks. Mikilvægt er að þessir málaflokkar falli ekki í skugga annarra stórra verkefna á höfuðborgarsvæðinu sem eiga það til að taka yfir athygli fjölmiðla.

Norðvesturkjördæmi er víðáttumikið en um leið fámennasta kjördæmið sem setur miklar áskoranir á stjórnvöld. Uppgangur hefur verið á Vestfjörðum síðustu ár í kjölfar aukins fiskeldis en við sjáum að verulega skortir á að uppbygging stjórnsýslu og atvinnuumhverfis á svæðinu styðji við þessa mikilvægu atvinnugrein. Þetta þarf að bæta svo byggðalögin geti blómstrað nú þegar tækifærin eru að aukast.

Í kjördæminu er mikið af fjölbreyttum tækifærum í atvinnulífinu sem mörg eru vannýtt. Til að greiða fyrir þeim þarf að efla uppbyggingu innviða. Samgöngumálin á svæðinu hafa alltaf setið á hakanum og erum við mörgum áratugum á eftir öðrum í samgöngumálum. Engin nágrannaþjóða okkar myndi sætta sig við að láta einn landshluta vera svo afskiptan.

Miðflokkurinn hefur kynnt áætlunina Ísland allt sem byggist á því að efla þurfi byggðir landsins. Áætlunin fellst í að líta á heildarmyndina, ekki bara afmarkaðan landshluta eða eitt svið atvinnu, innviða eða þjónustu. Með því að líta á heildar- og langtímaáhrifin getum við leyft okkur að ráðast í miklar fjárfestingar í þeirri vissu að eitt muni styðja við annað og áhrifin verði á endanum hagkvæm fyrir allt Ísland.

Allt þetta helst í hendur, heilbrigðismál, menntun og önnur þjónusta ríkisins, samgöngur, nýir hvatar í skattkerfinu, atvinnuuppbygging, orkumál, fjarskipti og annað sem varðar daglegt líf fólks. Grunnhugmyndin er sú að allir landsmenn eigi rétt á sömu þjónustu og lífsgæðum óháð búsetu. Þetta segir að okkur að það verður að samstilla ólíkar aðgerðir svo eitt styðji við annað og tækifærin nýtt um land allt. Opinber störf utan höfuðborgarsvæðisins verða að vera fleiri og það væri hægt m.a. með flutningi opinberra stofnana.

Landsmenn verða að geta notið góðs af þjónustu heilbrigðiskerfisins, geðheilbrigðisþjónustu og ekki síst góðu og aðgengilegu hjúkrunarrými fyrir eldra fólkið. Ríkið verður að uppfylla ákveðið þjónustustig án tillits til staðsetningar og draga verður úr álagi og kostnaði með því að minnka ferðakostnað sjúklinga og fjölskyldna þeirra.

Við verðum að geta verið örugg um að nám sé aðgengilegt á öllum stigum og tryggt án staðsetningar. Lýðheilsan, íþróttir og jafnrétti í búsetu er það sem ég vill sjá. Staðbundið háskólanám sé kostur og er það meginforsenda þess að á svæðinu verði blómleg byggð í komandi framtíð.

Grunnstefna Miðflokksins er sú að allir landsmenn eigi rétt á sömu þjónustu og lífsgæðum óháð búsetu. Það virðist augljóst að þannig eigi það að vera og þannig ætlum við okkur að láta það verða.

Finney Aníta Thelmudóttir

Höfundur er laganemi og skipar þriðja sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

DEILA