Haraldur Benediktsson: styður heilshugar fiskeldið

Haraldur Benediktsson, alþm. lýsti yfir afdráttarlausum stuðningi við laxeldi á Vestfjörðum í viðtali á sjónvarpsstöðinni N4 á fimmtudagskvöldið.

Hann var þar ma annars spurður út í afstöðuna til fiskeldis og var þá skírskotað til þess að í kjördæminu væru laxveiðiár.

Haraldur saðist styðja heilshugar þá uppbyggingu sem hafi átt sér stað í fiskeldi á Vestfjörðum. Hann sagði um að ræða stóriðju Vestfirðinga.

„Ég hvet fólk til þess að fara vestur á firði og sjá þá umbreytingu sem er að verða á þessum samfélögum. Þar má kannski helst gagnrýna að við erum á eftir að fylgja þessari miklu atvinnuuppbyggingu eftir með samgöngukerfinu og slíkum þáttum. Við erum að vinna þetta með ábyrgum hætti. Við fórum þessa áhættumatsleið, sem er að vakta umhverfið og stilla í raun og veru framleiðsluna, stækkun eldisins, á móti því að við séum ekki að taka áhættu með umhverfið. Það er í mínum huga algjörgt lím í þessari uppbyggingu að við séum að virða bæði sjónarmið, þ.e.a.s. þeirra sem vilja sækja fram og efla atvinnu og verðmætasköpun og þeirra sem halda síðan á gjöfulum, verðmætum veiðiám sem eru í mínu kjördæmi ein megin byggðastoðin í flestum héruðum þess. Það er stundum flókið að vera alþingismaður í Norðvesturkjördæmi með þessa hagsmuni en við höfum fundið okkur þarna leið sem ég trúi á að báðir aðilar virði sjónarmið hvors annars og þá sé umhverfisþátturinn ekki það vandamál sem stundum er gert úr.“

https://n4.is/frett/stundum-flokid-ad-vera-althingismadur-i-nordvesturkjoerdaemi