Halla Signý: halda áfram með núverandi ríkisstjórn

Höllu Signýju Kristjánsdóttur, alþm tókst að halda þingsæti sínu, þrátt fyrir að vera í 3. sæti lista Framsóknarflokksins í stað 2. sætisins sem hún skipaði í kosningunum 2017.

Bæjarins besta innti hana eftir skýringum og spurði hvort hún teldi sig hafa gott fylgi á Vestfjörðum.

„Já ég held ég sæki fylgi mitt um allt kjördæmið og sérstaklega hingað. Ég fann það bara í þessari kosningabaráttu að ég hafði það fylgi sem ég þurfti.“

Hvers vega bætti Framsókn svona miklu við sig?

„Ég tel að sú vinna sem við skiluðum á síðasta kjörtímabili hafi verið fólki að skapi. Farsælt samstarf og okkar áherslur hafi skipt máli. Þá vil ég sérstaklega nefna málefni sem Ásmundur Einar kom áfram og við getum bara litið til þeirra framkvæmda sem nú eru að verða í samgöngumálum hér á Vestfjörðum að það skiptir máli hver situr við stjórnvölinn. Nú svo er ég að halda að við þingmennirnir höfum sinnt okkar störfum vel og viljum vinna áfram við að finna lausnir við miserfiðum verkefnum.“

Hverjar verða þinar áherslur á komandi kjörtímabili?

„Ég ætla að halda mig við þær áherslur sem ég hef lagt megináherslu á, það er áframhaldandi samgöngubætur og standa vörð um vetrarþjónustu.  Yfirfæra kerfisbreytingar í þjónustu barna á fleiri hópa, og áframhaldandi uppbygginu í húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Mér finnst mikilvægt að vinna að því að byggja fiskeldið upp hér á Vestfjörðum með samfélagslegri ábyrgð með því að endurskoða laga og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis til að að ná utan um heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga.“

Hvað heldur þú um næstu ríkisstjórn?


„Það voru skýr skilaboð frá kjósendum að við eigum að halda áfram með þá ríkisstjórn sem nú situr við völd.“

DEILA