Guðný Lilja nýr framkvæmdastjóri Hrafna Flóka

„Mér lýst alveg ótrúlega vel á þetta starf,“ segir Guðný Lilja Pálsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Hrafna-Flóka og kom til starfa hún um miðjan ágúst. Hún tekur við því af Páli Vilhjálmssyni, sem hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra síðastliðin sex ár.

Guðný býr á Patreksfirði en er fædd í Kópavogi. Hún er menntaður tómstunda- og félagsmálafræðingur og er nú í meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands.

Guðný segir frábært að vera fyrir vestan.

„Það er æðislegt og gefandi að fá að leiða íþrótta- og tómstundastarf hér á sunnanverðum vestfjörðum, en auðvitað áskorun líka. Ég er þess vegna mjög spennt fyrir komandi vetri.“

Sambandssvæði Héraðssambandsins Hrafna-Flóka er Vesturbyggð, það er Patreksfjörður og Bíldudalur, Tálknafjörður og sveitir í kring. Iðkendur eru um 350 á öllum aldri.

 

Héraðssambandið Hrafna-Flóki er eitt af 28 sambandsaðilum Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). UMFÍ er landssamband ungmennafélaga á Íslandi og var stofnað árið 1907. Innan UMFÍ eru 450 íþrótta- og ungmennafélög um allt land. Þar á meðal eru næstum öll íþróttafélög landsins.

Guðný Lilja Páls­dóttir hefur einnig nýlega hafið störf sem íþrótta- og tómstund­ar­full­trúi sveitarfélaganna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum.