Gísli Jóns: Norðmenn gefa nýja vél

Eins og fram hefur komið hér á Bæjarins besta er björgunarskipið Gísli Jóns á Ísafirði í slipp hjá Stálorku í vélarskiptum þar sem endurnýja þarf aðra aðalvél skipsins. Þetta er nokkurt verk enda þarf að rjúfa brúargólf, skera burt hluta af brúarþili og fjarlægja tæknibúnað í brú til þess að koma upp vélinni sem á að skipta um og hinni niður.

„Það er ekki orðum ofaukið að þegar að ljóst var að bakborðs vélin í Gísla var biluð að mönnum væri nokkuð brugðið enda ljóst að fram undan væri verulega kostnaðarsöm viðgerð á skipinu“ segir í fréttatilynningu frá Landsbjörgu.  

Gísli Jóns er smíðaður árið 1990 úr áli, hann er með tvær M.A.N aðalvélar 662 kW hvor og nær skipi rúmlega 27 hnúta og hefur 5,1 tonna togkraft.


Fór stjórn Björgunarbátasjóðs Vestfjarða á Ísafirði á stúfana til þess að leita að varahlutum í vélina til þess að koma mætti Gísla í útkallshæft ástand svo fljótt sem auðið er. Meðal annars var leitað til Redningsselskapet (RS) í Noregi þaðan sem Gísli var keyptur 2019, það stóð ekki á svörum þar, til var nánast ónotuð aðalvél sömu tegundar og er í Gísla í eigu RS sem nýtist þeim ekki. Þegar að Norðmenn voru spurðir hvað myndi kosta að kaupa af þeim vélinna koma fljótt til baka svar, þið fáið vélina, aðra blokk og ýmsa varahluti gefins. Þessi höfðinglega gjöf var auðvitað þegin með þökkum og var nokkrum dögum seinna lagður af stað pakki frá Bergen sem innihélt áðurnefnda vél og varahluti.mt 10 m.kr. kostnaður

Þó að gjöfin frá RS sé höfðingleg er samt ljóst að viðgerðin á Gísla tekur nokkuð í rekstur Björgunarbátasjóðs Vestfjarða og viðhaldssjóð björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar og má lauslega áætla að vélarskiptin og tilfallandi viðgerðir henni tengd kosti allt að 10 milljónum króna. Minni lokaður björgunarbátur er staðsettur í Bolungarvík og því ekki þannig að ekkert viðbragð sé við Djúp.

Formaður björgunarbátasjóðs Vestfjarða er Gauti Geirsson, Ísafirði.

Myndir: Landsbjörg.