Gamlir menn á nýjum bílum

Það er auðvelt að fyllast óhug yfir fréttum af hækkandi hitastigi jarðar ðþessa dagana. Löngunin er sterk til að slökkva á öllu upplýsingaflæðinu nú þegar allt virðist vera á leið til glötunar, en það veldur þá kannski enn frekari áhyggjum um að það sé óábyrgt að vera sinnulaus um umhverfismálin. Það er nefnilega ekki hægt að stinga hausnum í sandinn lengur. Við getum tekist á við þessi vandamál sem blasa við okkur með nokkrum sterkum verkfærum sem við búum öll yfir og þau hafa ekkert með aldur eða búsetu að gera. Þetta er málefni sem varðar alla landsmenn og það þarf raunverulegan samtakamátt til að taka á málum.

Því miður virðast ekki allir stjórnmálaflokkar átta sig á alvarleika stöðunnar, eins og bersýnilega kom í ljós í nýlegri einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir umhverfis- og loftslagsstefnur flokka fyrir Alþingiskosningar. Þessir flokkar kjósa að sitja með hendur í skauti og kinka hróðug kolli í átt að gömlum vatnsaflsvirkjunum og telja þar með að við séum laus allra mála. Þess í stað ættum við að horfa til þess að halda á spöðunum, í bókstaflegri merkingu, til að draga úr loftslagsvánni. Með áræðni og jákvæðu hugarfari sem snýr að því að gera meira af því sem dregur úr losun kolefnis getum við sett loftslagsmálin í forgang í allri stefnumótun. Það ætti heldur ekki að vera þannig að lausnin á loftslagsvandanum komi bara ofan frá. Framlag allra skiptir máli. Vinstri græn hafa meðal annars í metnaðarfullri umhverfisstefnu sinni að tryggja gagnsæi og aðgengi að upplýsingum í umhverfis- og loftslagsmálum en þannig fær almenningur beina aðkomu að ákvörðunum.

Eitt stærsta framlag hvers og eins til að draga úr losun kolefnis felst í breyttum samgönguvenjum. Það er mikilvægt að allar loftslagsaðgerðir séu ákveðnar með tilliti til félagslegs réttlætis og að þær bitni ekki á efnaminna fólki. Það skiptir máli að lausnin á loftslagsvandanum sé gerð á forsendum félagshyggju og jöfnuðar. Það getur til dæmis verið ein mjög öflug loftslagsaðgerð að styrkja við auknar almenningssamgöngur milli þéttbýliskjarna og innan dreifbýlis. Hvatningunni til fólks um að hvíla bílinn eða skipta yfir í rafmagnsbíl þarf að fylgja valkostur um ódýrari samgönguleiðir eins og góðan strætó eða betri mokstur og lýsingu á gönguleiðum til að fækka dögunum sem þarf að grípa í bílinn.

Undir stjórn Vinstri grænna er öruggt að leiðin út úr loftslagsvandanum verður ekki ekin af gömlum mönnum í nýjum bílum heldur allskonar fólki í strætó.

Sigríður Gísladóttir

Höfundur skipar þriðja sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi

DEILA