Flateyrarvegur: hugmyndir um breyttan veg til að auka öryggi

Á síðasta ári voru kynntar hugmyndir Vegagerðarinnar um breytingar á Flateyrarvegi til þess að auka öryggi á veginum. En snjóflóð valda því að vegurinn lokast annars vegar á vegarkaflanum frá Hvílft út að Sólbakka og hins vegar frá Breiðadal að Selabóli. Settar voru fram hugmyndir um vegskála og að færa veginn á fyrri kaflanum sem áætlað var að kostuðu 1 milljarð króna. Inn við Selaból var stungið upp á því að færa veginn og fara yfir á Holtsoddann og þar með fram hjá snjóflóðasvæðinu. Það er áætlað að kosti 1,5 milljarð króna.

Ef valið yrði að byggja vegskála yfir snjóflóðahættusvæðið, 1,8 km langt, gæti kostnaðurinn orðið um 7 milljarðar króna.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvaða kostur verði fyrir valinu til þess að gera þennan 7 km langa veg að öruggum vetrarvegi.

Hugmyndasmiðurinn Valdimar Jónsson á Flateyri hefur velt þessu fyrir sér og hefur sett fram þá tillögu að færa veginn á báðum þessum svæðum niður í fjöruborð og reyndar aðeins lengra út í sjóinn en yrði þó allur upp á marbakkanum. Staðsetningin miðast við nýta núverandi ræsi, brýr og vegamót í Breiðadal. Hyggst hann þannig ná því fram að vegurinn verði utan við farleiðir snjóflóða, en þó ekki það langt út í sjó að verði vandasamt með fyllingar undir veginn.

Auk færslu á veginum gerir Valdimar ráð fyrir að gera 300 m langan varnargarð á núverandi vegi á Selabólsurðinni ca 6 – 8 metrar að hæð, annan lægri varnargarð á veginum innan til við Sólbakka og þann þriðja hærri, 15 – 20 metrar til varnar höfninni við enda núverandi varnargarðs, þar sem bensínsalan er. Núverandi lón yrði fyllt. Þá myndi nýi vegurinn tengjast Flateyrinni við símstöðina með hringtorgi.

.

DEILA