Fisherman: 20 nýir starfsmenn á Suðureyri

Fyrr í sumar byrjaði Fisherman að byggja nýtt reykhús við Skólagötu á Suðureyri. Verkið hefur gengið hratt og vel og áætlað er að hægt verði að hefja rekstur í húsinu strax eftir áramót og að þar verða um 20 starfsmenn við störf. Húsið skiptist í þrjár byggingar sem tengjast saman með tengibyggingu og verður heildar gólfflötur um 700 fermetrar þegar verkinu verður lokið. Fisherman hefur undanfarin misseri rekið reykhús í Hafnarfirði og verður tækjabúnaður fluttur vestur í áföngum. Hluti af starfsfólkinu kemur einnig með vestur. 

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman var inntur eftir ástæðum þessarar uppbyggingar.

„Okkur hlakkar mikið til að komast í sérhannað húsnæði sem mun auka afköst í okkar framleiðslu töluvert. Eftirspurn eftir okkar vörum hefur verið meiri en við höfum ráðið við að framleiða undanfarið svo þetta skref er því kærkomið til að bæta reksturinn með stærðarhagkvæmni. Það er okkar stefna að vera með alla framleiðsluna fyrir vestan sem næst uppruna hráefnisins. Við viljum einnig leyfa okkar gestum sem heimsækja fyrirtækið að sjá hvernig við framleiðum fyrsta flokks vörur. Við höfum ekkert að fela og við viljum sýna það í verki. Það skiptir svo miklu máli í sölu á matvælum í dag að sýna viðskiptavinum hvað við erum að gera í framleiðslunni.“

Í dag er hægt að kaupa vörur frá Fisherman hér á Íslandi, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Svíþjóð, Kanada og USA.