FÍB segir tryggingafélögin óstöðvandi okurfélög

Tryggingafélögin græða á tá og fingri eins og viðskiptafréttir bera með sér. Kemur auðvitað ekki á óvart, viðskiptamódelið er skothelt: Engin verðsamkeppni, stöðug hækkun iðgjalda, minnkandi kostnaður og velþóknun stjórnvalda segir í grein á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Bílatryggingar hafa hækkað um 44% á örfáum árum og iðgjaldahækkanir á bílatryggingum eru komnar út yfir allt velsæmi. Frá 2015 hefur vísitala bílatrygginga hækkað um 44% meðan vísitala neysluverðs hækkaði um 17%. Á sama tíma hefur umferðarslysum fækkað um 14% og slösuðum fækkað um 23% (tölur Samgöngustofu í árslok 2020). Kostnaður tryggingafélaganna hefur því lækkað til muna eins og gefur að skilja. Samt hækka þau iðgjöldin eins og enginn sé morgundagurinn og nú er svo komið að iðgjöld bílatrygginga eru að jafnaði tvöfalt hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Tryggingafélögin hafa mörg undanfarin ár kynnt fádæma góða afkomu. Nýlegt dæmi um þá fjármuni sem streyma til þeirra úr vösum almennings er sameining Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) og Kviku banka. Kvika hefur verið afar vel rekinn banki og rakað inn hagnaði. En fjárhagslegur styrkur TM var svo mikill að tryggingafélagið á mikinn meirihluta í hinu sameinaða fyrirtæki. Arion banki keypti tryggingafélagið Vörð árið 2016.

DEILA