Dýrafjarðargöng: 44 þúsund bílar um göngin á árinu

Um 44 þúsund bílar hafa ekið í gegnum Dýrafjarðargöngin frá áramótum samkvæmt tölum frá Vegagerðinni sem Jónas Guðmundsson sýslumaður hefur fengið fyrir hönd Samgöngufélagsins. Að meðaltali hafa 187 bílar ekið um göngin á degi hverjum.

Mest var umferðin í júlímánuði. þá fóru 13.195 bílar í gegnum göngin sem gerir 426 bílar á dag að meðaltali.

Í ágúst hafa 430 bílar að meðaltali dag hvern ekið þar í gegn, eða alls 9.459 bílar, en þær tölur ná aðeins til 22. ágúst. Ef síðustu dagarnir hafa verið í samræmi við það má búast við, þá er líklegt að ágústumferðin slái júlímánuði við.

Þetta er mikil aukning frá janúarmánuði. Þá fóru 2.053 bílar í gegn eða um 66 bílar að meðaltali dag hvern í mánuðinum.

Meðaltalið hefur því vaxið úr 66 bílum í janúar upp í 430 bílar fyrstu þrjár vikurnar í ágúst. Það er aukning umferðar um 550%.

Þess ber auðvitað að geta að ólíku er saman að jafna vetrarmánuð og sumarmánuð en engu að síður er umferðaraukningin mjög mikil.