Brottkast, nei takk

Á undanförnum árum hafa sjónir manna í auknum mæli beinst að umgengni við hafið og hvernig auðlindir þess eru nýttar.

Eitt af því sem þar kemur til skoðunar er brottkast á fiski, en meginreglan samkvæmt íslenskum lögum er sú, að það er óheimilt. Og ætíð ber að tryggja það að stofnar séu nýttir með forsvaranlegum og sjálfbærum hætti. Ýmsar leiðir eru útfærðar í lögum til þess að koma í veg fyrir brottkast og tryggja rétta skráningu og vigtun á sjávarafla.

Í baráttunni gegn brottkasti gegna sjómenn, starfsfólk og stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja lykilhlutverki.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannasamband Íslands og Félag vélstjóra og málmtæknimanna hafa sameinast um gerð fræðsluefnis um brottkast. Fræðsluefnið er á veggspjaldi og í smáforriti fyrir síma. Þar er farið í nokkrum orðum um brottkast, reglur, undanþágur og úrræði.

Það er von þeirra sem standa að útgáfu fræðsluefnisins að veggspjöld verði hengd upp á áberandi stað í bátum og skipum og forsvarsmenn útgerða tryggi að starfsmenn kynni sér fræðsluefnið í smáforritinu.

DEILA