Barnabætur – fyrir okkur öll

Eitt sinn fengum við hjónin greiddar út barnabætur með börnunum okkar tveim sem við áttum þá (þriðja barnið bættist við síðar). Ekki man ég hverjar upphæðirnar voru, en bæturnar dugðu til að kaupa hnjá- og olnbogahlífar fyrir dóttur okkar, sem hafði nýlega eignast línuskauta og Playmo-lögreglubíl fyrir soninn. Þar með voru barnabæturnar búnar og við héldum áfram að reka heimilið eins og við vorum vön, mánuð í senn frá einum launatékka til þess næsta. Við vorum ekkert hátekjufólk (grunnskólakennari og leikskólakennari) en síður en svo á lægstu tekjum heldur. Sennilega einhvers staðar undir meðaltekjum eins og þær voru þá.

Frá árinu 1990 hefur stuðningur með hverju barni minnkað um meira en helming hérlendis í hlutfalli við landsframleiðslu. Á sama tíma hafa nágrannalönd okkar viðhaldið sínum barnabótakerfum og gætt þess að upphæðir barnabóta skipti raunverulegu máli í heimilisbókhaldi venjulegs launafólks. Á meirihluta þessa tímabils höfum við Íslendingar búið við hverja hægri stjórnina á fætur annarri og þessar hægri stjórnir hafa einfaldlega látið það gerast að bótakerfi ríkisins, þar á meðal barnabætur, eru látin dragast aftur úr almennri launa- og verðlagsþróun þannig að smám saman verða þau að engu. Þetta eru dæmigerðar aðferðir hægri manna til að hækka skattbyrði lág- og millitekjufólks. Á sama tíma er skattbyrðinni sífellt létt af þeim sem mest eiga, en það er efni í aðra grein.

Afleiðing þessarar þróunar er sú að íslenska barnabótakerfið er nú ekkert annað en sérkennilega útfærð fátækrahjálp. Skerðingarmörk liggja mjög lágt og skerðingarhlutföll eru há með þeim afleiðingum að byrjað er að skerða bæturnar um leið og komið er upp fyrir lægstu laun á almennum vinnumarkaði og þegar foreldrar ná meðalatvinnutekjum er búið að skerða allar barnabætur.

Þessi útfærsla á barnabótum lýsir algeru skilningsleysi á því hvernig velferðarkerfi eiga að virka og til hvers þau eru. Þessi kerfi eru vissulega til þess ætluð að jafna lífskjör mismunandi hópa í samfélaginu, en þau eru ekki eingöngu til þess. Velferðarkerfi eins og barnabótakerfið eru einnig til þess ætluð að jafna stöðu ólíkra fjölskyldugerða og ekki síður að jafna lífskjör fólks yfir æviskeiðið. Öll vitum við að ungt fólk sem er að eignast börn og koma sér upp heimili glímir oft við þungan heimilisrekstur með miklum kostnaði. Að auki er það einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt að Íslendingar haldi áfram að eignast börn. Náttúruleg fjölgun er nauðsynleg nú þegar meðalaldur fer sífellt hækkandi og mannfjöldapíramídi sem breikkar stöðugt að ofan en mjókkar að neðan er vísbending um ósjálfbæra þróun þjóðar. Það er því hagur okkar allra að ungt fólk eignist börn, og helst sem flest. Barnabætur eru því fjárfesting í heilbrigðri þróun þjóðar.

Þetta skilja nágrannar okkar á hinum Norðurlöndunum. Í flestum þeirra eru barnabætur einfaldlega flatar upphæðir óháðar tekjum. Í Danmörku eru barnabætur tekjutengdar eins og á Íslandi, en þar liggja skerðingarmörkin miklu hærra í tekjudreifingunni og skerðingarhlutfallið er umtalsvert lægra. Á Íslandi fær meðaltekjufjölskylda með tvö börn engar barnabætur en annars staðar á Norðurlöndum fengi sama fjölskylda um 50 þúsund krónur á mánuði.

Samfylkingin ætlar að greiða fullar barnabætur með öllum börnum til foreldra með allt að meðaltekjum (u.þ.b. 1200 þúsund á mánuði hjá pari eða 600 þúsund krónur fyrir einstætt foreldri), þannig að meðalfjölskylda með tvö börn, sem nú fær engar barnabætur, fái 54 þúsund krónur í hverjum mánuði og einstæðir foreldrar 77 þúsund krónur á mánuði. Einnig ætlum við að hækka þak á greiðslur í fæðingarorlofi í samræmi við launaþróun og hækka fæðingarstyrk námsmanna og foreldra utan vinnumarkaðar í dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytis.

Nái tillögur Samfylkingarinnar fram að ganga munu fleiri njóta barnabóta en áður og allar fjölskyldur upp að meðaltekjum fá þær óskertar og greiddar út mánaðarlega þannig að þær komi að raunverulegum notum í venjulegum heimilisrekstri. Þannig endurreisum við stuðningskerfið fyrir barnafjölskyldur á Íslandi.

Valgarður Lyngdal Jónsson

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

DEILA