81% Vestfirðinga jákvæðir í garð fiskeldis

Yfirgnæfandi meirihluti Vestfirðinga eru jákvæðir gagnvart fiskeldi á Vestfjörðum. Aðeins 11% eru neikvæðir. Þetta kemur fram í könnun sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði fyrir Vestfjarðastofu.

Könnun fór fram meðal Vestfirðinga frá 8. október til 17. nóvember 2020. Könnunin var send á 1299 netföng og bárust 427 svör sem gerir 35,3% svarhlutfall. Gögnin voru vigtuð út frá aldri svo úrtakið myndi betur endurspegla þýðið.

Spurt var allmargra spurninga og meðal athuglisverðra svara er að 88% telja fiskeldið bæta búsetuskilyrðin þar sem eldið er stundað, 73% telja eldið hækka almennt þjónustustig, 81% segja fiskeldið auka fjölbreytni starfa og 87% af það efli fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum.

Nærri 50% er ósammála því að fiskeldinu fylgi neikvæð sjónræn áhrif og aðeins 28% sammála þeirri fullyrðingu.

Þá eru 72% ósammála þeirri fullyrðingu að fiskeldinu fylgi ekki nægilegur efnahagslegur ávinningur til þess að réttlætanlegt sé að stunda það. Sammála eru 16%.

61% svarenda eru ósammála því að sjónræn áhrif fiskeldis hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Sammála eru 17%.

Um það bil 3/4 svarenda segja að fiskeldinu fylgi að verð fasteigna hækkar og svipað hlutfall er sammála því að fiskeldinu fylgi sérhæfð og vellaunuð störf.

Strandir og Reykhólar skera sig úr

Svörin eru greind eftir búsetu á Vestfjörðum í fjögur svæði. Ísafjörður, önnur byggðarlög á Norðanverðum Vestfjörðum, sunnanverir Vestfirðir og Strandir/Reykhólar. Almennt eru svörin mjög svipuð á svæðunum fjórum en þó sker sig svæðið Strandir/Reykhólar úr að því leyti að jákvætt viðhorf til fiskeldis og áhrifa þess er lægra en á hinum svæðunum en þó samt mun hærra en neikvæðu viðhorfin. Ekkert fiskeldi er stundað á því svæði og því virðist mat svarenda byggt á mati þeirra á áhrifum á öðrum svæðum en þar sem svarendur búa.

svör við spurningunni um mat á sjónrænum áhrifum af fiskeldi.

Fundir um framtíðasýn fiskeldis á Vestfjörðum

Í kvöld kl 19:30 verður á Patreksfirði í Félagsheimilinu fundur um framtíðarsýn fiskeldis á Vestfjörðum. Það er Vestfjarðastofa sem stendur fyrir fundinum. Meðal ræðumanna verða framkvæmdastjórar fiskeldisfyrirtækjanna, bæjarstjórar og fulltrúra frá Atvinnuvegaráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Hafrannsóknarstofnun og Vestfjarðastofu.

Hvatt er til þess að skrá sig á fundina á slóðinni https://www.vestfirdir.is/…/framtidarsyn-i-fiskeldi-1 á síðu Vestfjarðastofu því enn þarf að skrá alla vegna sóttvarna.

Annað kvöld verður annar fundur á Ísafirði.