Það hefur gengið erfiðlega að fá samgönguráðherra til þess verks að forma nýja jarðgangaáætlun. Áætlun sambærilega þeirri sem lögð var fram um aldamótin og Dýrafjarðargöngin voru hluti af. Í báðum samgönguáætlunum þess kjörtímabils sem nú er að klárast var lögð áhersla á að slík vinna færi af stað, en heimtur hafa verið hóflegar, svo vægt sé til orða tekið. Í núgildandi áætlun, sem var samþykkt 29.júní 2020, eru göng til Seyðisfjarðar ein á blaði frá samgönguráðherra, allt til ársins 2034. Það er staða sem ekki er hægt að una við.
Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar, sem einn undirritaðra fer fyrir, er ráðherra aftur uppálagt að vinna nýja jarðgangaáætlun og þar með nokkuð skýrari fyrirmælum en þeim sem virtust ekki skiljast í fyrri tilraun nefndarinnar.
Síðan vinna hófst við göng undir Breiðdals- og Botnsheiði (Vestfjarðagöng) árið 1991 og þar til Dýrafjarðagöng voru opnuð hafa 9 jarðgangaverkefni verið kláruð (þá teljum við ekki með göngin hans Steingríms á Bakka). Samanlagt eru það tæpir 60 kílómetrar. Á 30 árum voru kláraðir að jafnaði 2 kílómetrar af jarðgöngum á ári.
Miðflokkurinn leggur til að við mótun nýrrar jarðgangaáætlunar verði bætt í um helming, þannig að miðað verði við að 3 kílómetrar verði að jafnaði kláraðir á hverju ári. Þannig komumst við ofan af heiðunum, stækkum atvinnusvæði og bætum lífskjör og öryggi þeirra sem nota þurfa vegina.
Ef sett verður stefna sem miðar við 3 kílómetra af jarðgöngum á ári og að samfella verði í framkvæmdum en ekki jarðgangastopp eins og nú er, þá verður þess ekki langt að bíða að Álftafjarðargöng verði klár, göng um Mikladal og Hálfdán sömuleiðis. Í framhaldi af því verður breikkun Vestfjarðaganga að komast á dagskrá. Þessum verkefnum til viðbótar þarf að undirbúa göng undir Kleifarheiði/um Skápadal. Ef sýnin er skýr og niðurstaða um það í hvaða röð ætlunin er að framkvæma, þá vinnast verkin furðu hratt.
Jarðgöng eru á endanum bara vegur, dálítið dýrari en brú, töluvert dýrari en hefðbundinn vegur, en þau borgar sig upp hraðar en flest excel skjölin gera ráð fyrir þegar þau hafa tryggt atvinnu, öryggi og lífgæði þeirra sem á svæðunum búa. Velkist til dæmis einhver í vafa um að Héðinsfjarðargöngin hafa gert gagn og aukið verðmæti svæðisins umfram kostnað við framkvæmdina? Nú eða göngin út í Bolungarvík?
Það sem vantar í dag er sýn á framþróun jarðganga á Íslandi. Hana höfum við í Miðflokknum. Fáum við til þess styrk í komandi kosningum, þá verður vinna við nýja jarðgangaáætlun komin á fullt strax í haust. Við gerum það sem við segjumst ætla að gera.
Bergþór Ólason
Oddviti Miðflokksins í NV og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Finney Aníta Thelmudóttir
3.sæti á lista Miðflokksins í NV.
Hákon Hermannsson
6.sæti á lista Miðflokksins í NV.