Vesturbyggð: fjarfundir til haustsins vegna covid19

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að nýtt verði heimild í lögum um tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga, svo sveitarstjórn sé starfhæf. Vísað er til auglýsingar um ákvörðun sveitarstjórnarráðherra vegna neyðarstigs almannavarna af völdum Covid-19. Samþykkt var að heimildin næði til funda bæjarstjórnar Vesturbyggðar og fastanefnda Vesturbyggðar. Heimildin gildir til 1. október 2021.

Ákvörðunin er rökstudd á þann veg að hún sé til þess að :

„tryggja megi starfhæfi bæjarstjórnar Vesturbyggðar og til að auðvelda ákvarðanatöku að heimilt verði að notast við fjarfundabúnað á fundum bæjarstjórnar og hjá fastanefndum Vesturbyggðar. Engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem tekið geta þátt í fundum bæjarstjórnar og nefnda í fjarfundabúnaði. Ritun fundargerða skal í þeim tilfellum fara fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins um ritun fundargerða nr. 22/2013, frá 15. janúar 2013. Fundargerð skal deilt með öllum fundarmönnum á skjá við lok fundar og lesin yfir, hún skal svo send fundarmönnum til staðfestingar í tölvupósti eða undirrituð með rafrænum hætti.“

DEILA