Verndarsjóður villtra laxastofna: opið sjókvíaeldi tifandi tímasprengja

Verndarsjóður villtra laxastofna, NASF, segir í fréttatilkynningu að nýlegt myndefni kajakræðarans Veigu Grétarsdóttur, staðfesti að opið sjókvíaeldi sé tifandi tímasprengja í íslensku umhverfi og þjóðlífi.

Myndefnið var sýnt í kvöldfréttum RÚV laugardaginn 7. ágúst. Í fréttatilkynningunni segir að myndefnið sýni „ógeðfellda hlið sjókvíaeldis á Íslandi sem hefur fram að þessu verið hulin almenningi, mikið særðan lax og óhreinar kvíar.“

Fram kom í frétt RÚV að myndirnar hefðu verið teknar í apríl í Dýrafirði og Arnarfirði. Sást þar einn fiskur sem var illa farinn. Ekki var nánar upplýst um hvar né hvaða fyrirtæki ætti í hlut,en bæði Arnarlax og Arctic Fish eru með eldiskvíar á þessum slóðum.

Í fréttatilkynningunni segir að myndefnið sé sannanlega tekið upp í Arnarfirði og Dýrafirði. “ NASF heitir þeim trúnaði sem senda myndir eða gögn sem staðfesta neikvæðar hliðar laxeldis í opnum sjókvíum. Í frétt RÚV dró talsmaður laxeldis í efa að myndefnið væri úr þeirra sjókvíum en sjá má íslensk fjöll í bakgrunni við Þingeyri í Dýrafirði og við mynni Geirþjófsfjarðar í Arnarfirði.“

Nauðsynlegt að banna laxeldi í opnum kvíum

Þá segir NASF: „Þegar hefur borið á slysasleppingum og erfðablöndun sem getur útrýmt villta laxastofninum eins og er að gerast í Noregi, Skotlandi og fleiri löndum. Aðeins ein leið eldis á laxi tryggir viðgang náttúru og efnahagslífs – landeldi enda feta laxeldisfyrirtækin þann veg í nágrannalöndunum þar sem sjókvíaeldi er úreld og óumhverfisvæn framleiðsluaðferð. Nauðsynlegt er því að banna laxeldi í opnum kvíum áður en orðspor Íslands sem upprunaland hreinna afurða laskast og erlendar verslanir loka á innflutning á laxi vegna umhverfis- og dýraverndunarsjónarmiða.“

Þá segir að því fyrr sem gripið er í taumana því betur muni náttúru- og efnahagslífi Vestfjarða og Austfjarða verða borgið. Atvinnulíf í tengslum við laxeldi verði að vera sjálfbært og án áhættu fyrir lífríkið og stuðla að langtíma uppbyggingu en laxeldi verði best fest í sessi sem atvinnugrein með öruggu landeldi.

DEILA