Uppskrift vikunnar: kótilettur

Mér finnst fátt betra en kótilettur og þessa uppskrift myndi ég kalla kótilettur í sparifötum.

Verði ykkur að góðu.

Innihald:

6 svínakótilettur/lambakótilettur

1 gulrót

1 gulur laukur

1 lárviðarlauf

salt og pipar

vatn

1 msk kálfakraftur (kalvfond)

2 dl rjómi

1 dl sýrður rjómi

1 msk sojasósa

salt og pipar

sykur

Saltið og piprið kótiletturnar og brúnið þær á báðum hliðum á rúmgóðri pönnu. Skerið lauk í báta og gulræturnar í sneiðar og bætið á pönnuna, hellið síðan vatni svo rétt fljóti yfir. Setjið kálfakraft og lárviðarblað í og látið sjóða undir loki við vægan hita í 2-3 klukkustundir. Snúið kótilettunum gjarnan annað slagið.

Takið kjötið af pönnunni og sigtið sósusoðið. Setjið soðið aftur á pönnuna (laukurinn og gulrótin eiga ekki að vera með), hrærið rjóma og sýrðum rjóma saman við og smakkið til með sojasósu, salti og pipar. Setjið smá sykur í sósuna og leggið kótiletturnar í og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Berið fram með kartöflum og rifsberjahlaupi

Halla Lúthersdóttir