Ufsi

Ufsi (Pollachius) er fiskur af þorskaætt. Á íslensku heita tegundirnar tvær sem tilheyra ættkvíslinni annars vegar ufsi (Pollachius virens) og hins vegar lýr (Pollachius pollachius). Ufsi er algengur allt í kringum Ísland en lýr fremur sjaldgæfur. Ufsi er líka heiti á fiskum af annarri ættkvísl þorskaættar, Theragra, en þær tvær tegundir sem tilheyra þeirri ætt eru kallaðar Alaskaufsi og Noregsufsi.

Stærð: Ufsi er miðlungs fiskur á stærð. Hann er 70-110 cm langur og 4-10 kg, verður mest 125 cm og 15 kg. Ungfiskurinn er um 40-50 cm að lengd. Ufsinn verður kynþroska 4-7 ára og er hann þá orðinn 60-80 cm langur. Fæða hans er nokkuð breytileg eftir stærð og svæðum. Fullorðnir fiskar éta mest ljósátu, fiskseiði, loðnu, síld og stærsti fiskurinn étur einnig smokkfisk.

Lýsing: Ufsinn er straumlínulaga, gildastur um framanverða miðju og mjókkar í báðar áttir. Kjaftur hans er meðalstór með frekar smáar og hvassar tennur. Ungar hafa skeggþráð en hann hverfur með aldrinum. Fiskurinn hefur frekar stórt hreistur og hefur mjög greinilega rák. Hann hefur tvo raufugga og þrjá bakugga.

Lífshættir: Heimkynni ufsans eru í N-Atlantshafi og finnst hann m.a. við Ísland, Færeyjar og Bretlandseyjar. Hann er í norðanverðum Norðursjó og einnig finnst hann við strendur Danmerkur, auk þess sem hann finnst meðfram allri strönd Noregs. Við strendur N-Ameríku er að finna smærri stofn af ufsa. Hér við land er ufsinn algengastur í hlýja sjónum S og SV – lands þó hann finnist allt í kringum landið. Ufsinn er bæði uppsjávar- og botnfiskur. Hann heldur sig á öllu dýpi frá yfirborði og niður á 450 m dýpi, en algengast er þó að finna hann á um 200 m dýpi. Ufsinn ferðast oft í miklum torfum í ætisleit, og merkingar hafa sýnt að ufsinn flækist mikið, jafnvel á milli hafsvæða, eða frá Íslandi til Færeyja, Noregs og Skotlands, en einnig koma líka ufsar hingað frá Noregi og Færeyjum. Fullorðni fiskurinn safnast saman að vetrarlagi, fyrstur allra þorskfiska til hrygningar, og hefst hrygningin hér við land síðari hluta janúar og stendur fram í miðjan mars. Ufsinn hrygnir einkum á Selvogs- og Eldeyjarbanka á um 100-200 m dýpi.

Úr fiskabokin.is

DEILA