Sýslmaðurinn Vestfjörðum: vanrækslugjald hækkað

Samkvæmt nýrri reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021, sem tók gildi 1. maí sl., hækkar grunnfjárhæð vanrækslugjalds vegna óskoðaðra ökutækja allnokkuð.

 

Gjaldið sem áður var 15.000 kr. vegna allra flokka ökutækja, hækkar í 20.000 kr. vegna allra ökutækja annarra en fólksflutningabíla fyrir níu farþega eða fleiri, vöruflutningabíla eða aftanívagna
með heimilaðan farm yfir 3,5 tonn en vegna þeirra hækkar það í 40.000 kr.

 

Þá er sú nýlunda í reglugerðinni að hafi ökutækið ekki verið fært til skoðunar eða skráð úr umferð innan tveggja mánaða frá álagningu gjaldsins hækkar það um 100% eða í 40.000 kr. en í

80.000 kr. vegna þeirra stærri ökutækja sem nefnd  eru hér að framan.

 

Þeir sem fengu tilkynningu um álagningu vanrækslugjalds í byrjun júlí geta því átt von á 100% hækkun gjaldsins í byrjun september hafi ekki verið brugðist við fyrir þann dag.

 

Til að afstýra álagningu eða hækkun álagningar þarf að færa ökutækið til skoðunar eða skrá það úr umferð með því að skila skráningarmerkjum til skoðunarstofu eða senda beiðni um

tímabundna skráningu úr umferð til Samgöngustofu um vefinn www.samgongustofa.is.

 

Samkvæmt þessu getur hækkun almenna gjaldsins við reglugerðarbreytinguna numið allt að 375% af almennum ökutækjum en þegar verst lætur getur hún numið 533% af stærri
ökutækjunum þ.e. þegar gjaldið hækkar úr 15.000 kr. í 80.000 kr.

 

Sú regla gildir áfram að sé ökutæki fært til skoðunar eða það skráð úr umferð innan mánaðar frá álagningu fæst 50% afsláttur af gjaldinu.

 

Vakin er athygli á því að nú má færa öll ökutæki til skoðunar sex mánuðum fyrir skoðunarmánuð sem er talsvert rýmri tími en var samkvæmt eldri reglugerð.

 

Þess skal að lokum getið að í byrjun júlí þegar farið var að leggja vanrækslugjald á samkvæmt nýju reglugerðinni sættu eigendur alls 3.257 ökutækja álagningu gjaldsins og í byrjun ágúst voru ökutækin alls 3.434,
sem ekki höfðu verið færðt til lögmæltrar skoðunar innan tilskilins tíma.

 

Það er embætti Sýslumannsins á Vestfjörðum sem annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds fyrir landið allt.

 

DEILA