Súðavík: gönguhátíð gekk vel en fámenn

Gönguhátíðin í Súðavík var haldin um verslunarmannahelgina í sjöunda sinn en það er Einar Skúlason í Reykjavík sem hefur haft veg og vanda af hátíðinni. Einar er mikill göngugarpur og heldur úti göngufélaginu vesen og vergangur árið um kring með fjölmörgum skipulögðum gönguleiðum og hópum.

Gönguhátíðin hófst á fimmtudagskvöldið og lauk í gær. Farnar voru fjölmargar göngur, fjórtán manns fóru á föstudaginn yfir Álftafjarðarheiði til Önundarfjarðar og nærri 20 manns gengu á laugardaginn frá Arnardal yfir Súðavíkurfjall til Súðavíkur. Vegna þoku féllu niður göngur á Kofra og til Galtarvita um Bakkaskarð. Ýmislegt var að venju til skemmtunar, brenna, súpuveisla og sameiginlegt grill.

Einar Skúlason var ánægður með gönguhátíðina, veðrið var gott og hátíðin fór vel fram. Hann sagði að vegna aðstæðna hefði þátttakan verði með minnsta móti en sagðist bjartsýnn á þátttökuna að ári, hátíðin hefði greinilega unnið sér sess á Vestfjörðum.

Einar Skúlason.

Anna Lind Ragnarsdóttir, skólastjóri í Súðavík var fararstjóri í nokkrum gönguferðanna og sagði hún að allt hefði farið vel fram og að allir hefðu farið glaðir heim.

Anna Lind Ragnarsdóttir.