Þann 1. til 10. ágúst fór vísindafólk frá Hafrannsóknastofnun, Greenland Natural Resources (GINR) og Zoological Society í London (ZSL) í rannsóknaleiðangur á norska rannsóknaskipinu G. O. Sars. Leiðangurinn var hluti af verkefninu BENCHMARK en markmið þess er að rannsaka vistkerfi hafsbotnsins í Grænlandssundi.
Leiðangurinn var styrktur af Eurofleets+ Evrópusjóðnum ásamt framlagi þeirra stofnana sem tóku þátt, leiðangursstjóri var Julian Burgos frá Hafrannsóknastofnun.
Í Grænlandssundi mætir hlýr Norður Atlantshafssstjórinn köldum sjó frá Norðurslóðum. Innan svæðisins er mikill breytileiki í botnhita, straumhraða og botngerð sem hefur áhrif á samsetningu lífríkis á botninum. Í leiðangrinum var notaður ómannaður kafbátur (ROV) sem kallast Ægir 6000. Með honum var video- og ljósmyndaefni safnað með HD myndavélum.
Sérstakur griparmur sem er á Ægi var notaður til að safna völdum lífverum til frekari greininga. Kafað var á 28 stöðvum, bæði innan íslenskrar og grænlenskrar lögsögu. Mikill fjölbreytileiki svampa, kórala og annarra botndýra sást. Í flestum tilfellum er þetta fyrsta myndefni sem safnað hefur verið neðansjávar af þessum slóðum. Tveim köfunum var streymt beint á samfélagsmiðla.
Mælingar á straumum, seltu, hita og kolefni fóru fram og fjölgeislamælingar á botninum voru gerðar á þeim stöðvum þar sem slík gögn voru ekki fyrirliggjandi. Þær upplýsingar sem fást úr leiðangrinum munu varpa ljósi á auka skilning okkar á vistkerfi Grænlandssunds og eru góð undirstaða fyrir frekari rannsóknir á mögulegum breytingum og einnig til að meta verndargildi svæðisins.