Píratar: hætt verði sem fyrst með opið sjókvíaeldi

Píratar hafa ákveðið stefnu sína í fiskeldi fyrir komandi alþingiskosningar. Tillaga um stefnu fór í rafræna atkvæða greiðslu sem lauk 24. júlí og var hún samþykkt. Alls greiddu 40 atkvæði og þar af samþykkti 38 tillöguna en tveir greiddu atkvæði gegn henni.

Um fiskeldi í sjó segir að það skuli fara fram í lokuðum kvíum. „Fiskeldi sem nú þegar fer fram í opnum kvíum skal uppfylla kröfur um lokað sjókvíaeldi sem fyrst.“ Þá segir að beita skuli jákvæðum efnahagslegum hvötum til að fiskeldi á landi verði hagkvæmara en fiskeldi í sjó.

Hætt verði sem fyrst með opið sjókvíaeldi

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni sem samþykkt var segir að umfjöllun um sjókvíaeldi sé í samræmi við þau sjónarmið að að fiskeldi sé betur fyrirkomið á landi en í sjó og hinu opinbera beri að sjá til þess að hvatar þar að lútandi séu nægilega öflugir. Lagt er til að leyfisveitingar á fiskeldi í sjó takmarkist mjög eða leggist af. Hætt verði sem fyrst með opið sjókvíaeldi og félögum í fiskeldi gert skylt að loka kvíunum eða flytja starfsemina í land.

Um rekstrarleyfi fyrir fiskeldi í sjó segir í samþykktinni að það skuli veita í þrepum, „þannig að aðeins ákveðið hlutfall af burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar skuli úthlutað í einu. Frekari úthlutanir skulu fara fram að loknum ítarlegum rannsóknum á lífríki og náttúru.“

Einnig eru ákvæði um að setja hámark á hlutdeild af heimildum til fiskeldis til þess að koma í veg fyrir samþjöppun og að innheimta skuli fullt auðlindagjald af afla úr fiskeldi.