MMR : 75% kvenna telja að lýðræðinu stafi ógn af kvótakerfinu

Nærri tveir þriðju svarenda í könnun MMR fyrir Ölduna, félag um sjálfbærni og lýðræði, telja að lýðræðinu stafi ógn af núverandi útfærslu kvótakerfisins í sjávarútvegi.

Könnunin fór fram til 8. til 14. júlí 2021. Um var að ræða netkönnun. Niðurstöður voru vigtaðar m.t.t. dreifingar í þýði. 945 einstaklingar svöruðu.

Áberandi munur var á afstöðu kynjanna þar sem 75% kvenna svaraði spurningunni játandi og 58% karla sömuleiðis. Engu að síður er í báðum tilvikum meirihluti þessarar skoðunar. Meðaltalið er að 64% telja að kvótakerfið ógni lýðræðinu.

Ekki var nánar spurt um þetta atriði og því eru ekki upplýsingar um hvers vegna talið er að kvótakerfið sé varasamt að þessu leyti. Benda má á sem hugsanlegar skýringar að svarendur telji að kvótakerfið leiði af sér auðuga og valdamikla einstaklinga sem geti boðið lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum byrginn.

Afstaða svarenda er nokkuð samhljóða þegar svörin eru greind eftir tekjum, starfi, aldri, menntun og heimilsgerð. Í öllum tilvikum er meirihluti þeirrar skoðunar að kvótakerfið ógni lýðræðinu og tölurnar sveiflast frá 51% upp í 81%.

Eina verulega frávikið kemur fram þegar svörin eru greind eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru að miklum meirihluta til ósammála því að kvótakerfið ógni lýðræðinu. En frá 65% upp í 100% stuðningsmanna annarra flokka svara spurningunni játandi.

Aðeins 23% stuðningmanna Sjálfstæðisflokks og 33% stuðningsmann Framsóknarflokksins játa því að kvótakerfið sé ógn við lýðræðið.

Vísbending um skýringar geta falist í annarri spurningu könnunarinnar þar sem fram kemur að 66% eru óánægð með núverandi útfærslu kvótakerfisins og aðeins 14% ánægð. Hvað í útfærslunni veldur óánægjunni kemur ekki fram enda ekki um það spurt. Þar má giska á að sjálfvirk úthlutun á kvótanum og/eða fyrir lágt endurgjald til ríkisins sé orsökin en um það verður ekkert sagt með vissu.

DEILA