Lengjudeildin: Vestri vann Grindavík

Vestri skorar í síðasta leik gegn Gróttu. MyndÞ Kristinn H. Gunnarsson.

Vestri gerði góða ferð til Grindavíkur í gærkvöldi og sigraði Grindavík í Lengjudeildinni. Það mun vera í fyrsta skipti sem Vestfirðingarnir ná að leggja Grindvíkinga að velli.

Vestri byrjaði leikinn vel og Pétur Bjarnason náði forystunni fyrir Vestra með góðu marki á 8. mínútu leiksins. Skömmu síðar fengu Grindvíkingar vítaspyrnu en markvörður Vestra, Brenton Muhammad, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Í síðari hálfleik áttu Vestramenn í fullu tré við heimamenn og bæði liðin fengu færi til þess að skora. Um miðjan hálfleikinn fékk Vestramaðurinn Diogo Coelho sitt annað gula spjald og rautt í kjölfarið.

Manni fleiri gengu Grindvikingar á lagið og juku pressuna á Vestra. Uppskáru þeir jöfnunarmark skömmu fyrir leikslok.

Í uppbótatíma átti Vestri snögga sókn og Benedikt Warén slapp inn fyrir vörk heimamanna og skoraði sigurmarkið fyrir Vestra. Lokastaðan 1:2.

Eftir leikinn er Vestri í 5. sæti með 25 stig eftir 14 umferðir af 22, fjórum stigum á eftir liðinu í 2. sæti.

DEILA