Laxasláturhús: allt að 300 störf beint og óbeint

Bíldudalshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fram kemur í aðsendri grein frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur, alþm að um 300 störf muni vera í kringum slátrun á laxi á Vestfjörðum. Í dag starfa á Bíldudal um 60 manns við fiskeldið.

Fiskeldisfyrirtækin á Vestfjörðum Arnarlax og Arctic Fish vinna nú að staðarvali fyrir nýtt sláturhús sem muni anna allri framleiðslu á Vestfjörðum. Samkvæmt heimildum Bæjarins besta mun Háafell í Hnífsdal einnig koma að málinu. Ákvörðunar mun vera að vænta innan tveggja mánaða.

Áætlað er að fjárfestingin í nýju sláturhúsi verði 5 – 8 milljarðar króna.

Halla Signý leggur til í grein sinni að sláturhúsin verði tvö en ekki eitt, annað á sunnaverðum Vestfjörðum og hitt á norðanverðum Vestfjörðum. Hún segir að mat hennar á fjölda starfa sem tengist slátruninni sé byggt á upplýsingum sem hún hafi fengið og segir mat hennar eiga við þegar öll leyfi verði komin og nýtt. Þá segir hún að meiri mannafla þurfi í tvö sláturhús en eitt og segir að reiknað sé með að afleiddu störfin séu jafnmörg og beinu störfin, um 150 í hvoru tilviki eða 300 samtals.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax, var varkárari í mati á fjölda starfa vegna slátrunar á laxi í samtali við Bæjarins besta, en sagði að beinu störfin gætu orðið um það bil 100. Það væri byggt á áformaðri fullvinnslu laxsins í neytendaumbúðir, en í dag væri laxinn fluttur út slægður en heill og óunninn að öðru leyti. Björn byggði mat sitt á væntri heildarframleiðslu á Vestfjörðum þar sem 12.000 tonna framleiðsla væri leyfð í Djúpinu. Burðarþolsmatið er hins vegar 30.000 tonn.

Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur þegar hafið fullvinnslu á laxi og er að fikra sig áfram með þá vinnslu.

Landssamband fiskeldisstöðva gerði ráð fyrir því í mati sínu frá 2017 að hverju starfi í fiskeldi fylgdi 0,8 óbein störf. Ísafjarðarbær lét vinna fyrir sig sama ár mat á efnahagslegum áhrifum af eldinu og þar var miðað við að hverju beinu starfi fylgdi annað óbeint.

Þá hefur verið miðað við að hverju starfi fylgi 2,4 íbúar þegar saman eru tekin beinu og óbeinu áhrifin af fiskeldinu.

Ætla má miðað við framangreindar upplýsingar að 200 – 300 störf muni fylgja slátrun laxsins sem framleiddur verður á Vestfjörðum. Verði allt reiknað burðarþol nýtt til framleiðslu er fjöldi starfanna nær efri mörkunum. Það er metið sem íbúafjölgun frá 480 – 720 manns. Eru þá ótalin störfin vegna annarrar starfsemi fiskeldisins.

-k

DEILA