Laxasláturhús á Vestfjörðum

Mikil uppbygging hefur verið undanfarin ár í kringum sjókvíaeldi á landinu. Það hefur auðvitað mest borið á því á Vestfjörðum og Austfjörðum. En áhrifin eru um allt land. Í síðustu efnahagslægð, eftir bankahrun, var það ferðamannaiðnaðurinn sem var ausutrog þjóðarinnar og hjálpaði til við að reisa þjóðarskútuna á réttan kjöl. Nú erum við að renna inn í efnahagslægð eftir heimsfaraldur og það er nauðsynlegt að rétta upp öll segl til að halda áfram. Fiskeldi er ný og sístækkandi atvinnugrein hér á landi og nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Þessi grein hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratug og má eiga von á að atvinnugreinin skili tuga milljarða króna verðmætum í þjóðarbúið.

Fjölgun starfa á Vestfjörðum kringum sjókvíaeldið hefur verið umtalsverð og hefur uppbygging verið mest á sunnanverðum Vestfjörðum. Enda hefur íbúaþróun verið að snúist við. Uppbygging sjókvíaeldis hefur aukist líka á norðanverðum Vestfjörðum.  Gera má ráð fyrir að fiskeldið geti orðið stærsti hluti af efnahagsumsvifum á Vestfjörðum innan fárra ára. Það er mikilvægt bæði fyrir sveitarfélögin í fjórðungnum og fiskeldisfyrirtækin að greinin skili sér í uppbyggingu samfélagsins alls og þá er dreifing og fjölgun starfa gríðarlega mikilvæg.

Eitt eða tvö

Tvö af laxeldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum, Arnarlax og Arctic Fish hafa undanfarin misseri verið að gera athuganir á því hvar sé hagkvæmast að byggja  eitt nýtt sláturhús fyrir laxinn. Á Bíldudal er sláturhús þar sem um 60 manns hafa starfað en þörf er á að stækka til að mæta meiri framleiðslu.  Þetta er mikil fjárfesting hjá fyrirtækjunum og gera má ráð fyrir að störf í kringum slátrun á Vestfirskum eldislaxi geti verið um 300.

Til að hámarka ábata fiskeldisfyrirtækjanna og samfélagana í kringum eldið er  skynsamleg ákvörðun að hafa tvö sláturhús á Vestfjörðum, eitt á Suðurfjörðum og annað á Norðurfjörðunum. Þannig byggjum við upp sjálfbær samfélög fjárhagslega og auknar líkur eru á öflugri uppbyggingu innviða og þjónustu sem þarf til að mæta þörfum atvinnufyrirtækjanna. Það minnkar einnig líkur á smiti á milli svæða að hafa sláturhúsin tvö og skipta þannig Vestfjörðum upp í tvö lokuð framleiðslusvæði í stað þess að sigla með fisk á milli allra fjarða. Kostnaður við uppbyggingu sláturhúsa er gríðarlegur og eðlilegt að fyrirtækin horfi á að lágmarka kostnað per framleitt kíló en það þarf að taka allt inn í formúluna, hættu á aukinni sjúkdómshættu milli fjarða og að nærsamfélögin nái að vaxa og dafna með greininni. Það þarf ekki taka fram hversu mikilvægt það er að standa vel að allri uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum og einnig mikilvægi þess að öll starfsemi í kringum eldið sé staðsett innan fjórðungsins.

Þrjú sláturhús í Færeyjum

Nærtækt dæmi er í Færeyjum. Í Færeyjum er sjókvíaeldi umfangsmikið og framleiða þeir nú yfir 70 þúsund tonn af eldislaxi og má segja að þeir séu komnir í þá framleiðslu sem má sjá hér á Vestfjörðum þegar öll leyfi verða komin í gang hér á landi. Þeim hefur tekist að byggja upp starfsemi í kringum sjókvíaeldið sem munar miklu í færeysku samfélagi. Í Færeyjum eru þrjú laxeldisfyrirtæki og þrjú sláturhús.

Atvinnuuppbygging á Vestfjörðum þarf að vera í sátt við samfélögin og bygging laxasláturhúsa vegur þungt í þeirri sátt. Æskilegt væri að samráð yrði milli fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og stjórnvalda um hvernig uppbyggingunni skuli best háttað fremur en að samfélögum sé otað saman í keppni um megin hlutann af því uppgripi sem eldinu fylgir.

Halla Signý Kristjánsdóttir.

Höfundur er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

DEILA