Langa

Langa (Molva molva) er af þorskaætt (Gadidae) líkt og margir af okkar helstu nytjafiskum, svo sem þorskur, ufsi, ýsa og kolmunni.

Stærð: Langan hefur löngum verið álitin einhvers konar millistig milli þorsks og áls enda líkist hún þorski um margt en hefur ílangt vaxtarlag líkt og áll og getur orðið rúmir tveir metrar á lengd.

Lýsing: Langan er löng og mjóvaxin, sívöl og hauslöng. Kjafturinn er stór. Hún er undirmynnt með smáar tennur. Skeggþráður er á höku. Augu eru fremur smá. Bakuggar eru tveir og er sá fremri mun styttri en aftari bakuggi og raufaruggi, en þeir eru báðir langir og lágir. Kviðuggar eru all langir, en ná þó ekki lengra en aftur á miðja eyrugga. Eyruggar eru í meðallagi. Sporblaðka er bogadregin fyrir endann. Roðið er þykkt með smáu hreistri. Rákin er greinileg.

Lífshættir Eins og flestar aðrar tegundir af þorskaætt heldur langan sig við botninn og finnst á 40 til 1000 metra dýpi. Norskar rannsóknir hafa sýnt að það eru aðeins ungir fiskar sem finnast á innan við 100 metra dýpi. Langan er talin verða kynþroska 6-8 ára og mælist þá 70-80 cm á lengd. Líkt og aðrir þorskfiskar hrygnir hún urmul eggja (5-20 milljónum). Hrygning fer fram við Ísland í maí og júní og eru helstu hrygningarsvæðin við brúnir landgrunnsins á milli Vestmannaeyja og Reykjaness á 150-300 metra dýpi.

Langan er ránfiskur og rannsóknir á magainnihaldi hennar benda til þess að hún sé mikill tækifærissinni þegar kemur að fæðu. Mest hefur fundist af síld, kola, sperlingi, ungum þorski og ýsu í maga hennar en einnig ótal tegundir krabbadýra.

Af vefsíðunni fiskbokin.is

DEILA