Landnámsskálinn að rísa í Súgandafirði

Í Botni í Súgandafirði er þessa daganna fjölmennur flokkur karla og kvenna að byggja eftirlíkingu af skála landnámsmannsins Hallvarðs Súganda. Það er Eyþór Eðvarðsson sem er einn hvatamanna verksins og Valdimar Elíasson frá Þingeyri er yfirsmiður verksins.

Veggirnir voru kláraðir í vor og úr þessum myndarlegu rekaviðardrumbum sem fengnir voru úr rekafjöru í land Hrauns á Skaga við Skagafjörð eru grindin og þakið endurbyggð. Rétt eins og í skála Grélaðar og Áns rauðfelds þá verða 10 stoðir sem bera uppi grindina. „Við gefum okkur að Ánn hafi ekki látið þakið hvíla á torfveggjunum og munum því setja stoðir meðfram veggjunum til taka þungann af veggjunum.“ segir Eyþór.

„Allt er þetta gert til að læra og upplifa sögu þjóðarinnar og hafa gaman af því. Ef allt gengur eftir þá eignast Íslendingar á næsta ári, landnámsskála í Súgandafirði.“

Myndir: Eyþór Eðvarðsson og Ingrid Kuhlman.